Stöðfirðingar hjálpuðust að í allan dag við að hreinsa eftir óveðrið – Myndir

Stöðfirðingar fóru af stað í birtingu og voru að fram í myrkur til að hreinsa þorpið eftir ofsaveðrið sem gekk yfir Austfirði í gærmorgun. Íbúi segir mikið tjón hafa orðið þar.


„Fólk var að í allan gærdag á meðan var bjart og byrjaði strax klukkan níu í morgun,“ segir Stöðfirðingurinn Arnar Snær Sigurjónsson.

Hann segir Stöðfirðinga hafa gengið frá því „bráðnauðsynlegasta“ eftir hádegi í gær en í gærkvöldi boðuðu Íbúasamtök Stöðvarfjarðar til hreinsunar sem hófst klukkan níu í morgun og stóð þar til var orðið myrkvað.

„Það var skipt upp í hópa og hver hópur tók að sér ákveðin svæði. Það er búið að ganga um allt þorpið og inn að kirkjugörðum til að ganga frá því sem fauk og skemmdist.“

Mesta tjónið varð þegar byggingar splundruðust og brak úr þeim fauk og skemmdi út frá sér. Gömul verbúð, Söxuver, sem notuð var sem geymsla fauk og drasl úr henni skemmdi síðan aðveitustöð RARIK.

„Íbúar hafa beðið eftir að Söxuver færi í næsta hvassviðri. Það hefur ekkert verið gert fyrir það hús í 25 ár.“

Stór skúr á svæði Olíudreifingar var festur niður en fauk samt í heilu lagi og splundraðist, sömu sögu er að segja af kofa við kirkjugarðinn. Þurrkhjallur við gamalt verkstæði inni á strönd hvarf og brak úr honum braut rúður í verkstæðinu og að auki splundraðist eitt gróðurhús.

Arnar segir mikið um brotnar rúður í húsum og að 15 bifreiðar séu annað hvort með brotnar rúður eða tjónaðar eftir veðrið. Eitthvað var um að plötur í þökum og klæðningum húsa hafi losnað og fokið og lausadót úr gröðum, svo sem ruslatunnur, fóru á flakk. „Menn þurftu á stjá í flestum húsum, að hlaupa á eftir ruslatunnum og fleiri lausamunum.“

Hreinsunarstarfið er langt komið og Stöðfirðingar geta notið áramótabrennunnar sem fitnaði duglega í dag. „Við fengum leyfi til að bæta timbri úr húsunum sem splundruðust í gær við hana. Menn verða næstu daga að eiga við eignir og tína upp lausamuni. Við ætlum til dæmis að laga eitt þak á morgun en það er búið að taka þannig til að ekki verði meiri skaði ef hvessir aftur.“

 

Myndir: Arnar Snær Sigurjónsson

 

IMG 0286 Web
IMG 0290 Web
IMG 0296 Web
IMG 0298 Web
IMG 6832 Web
Sel Web
Sköpunarmiðstöðin Web
Söxuver Web

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.