Slóð skemmda eftir 54 m/s hviðu í Neskaupstað

Skemmdir urðu á nokkrum stöðum á Norðfirði í veðurofsanum í gær í mikilli hviðu sem fór í gegnum þorpið upp úr klukkan níu. Mælingar frá Breiðdalsheiði benda einnig til að þar hafi verið álíka hviður.

Um klukkan 9:15 í gærmorgunn mældist 54 m/s hviða á fjórum veðurmælum í umsjá einkaaðila á Norðfirði. Á sama tíma mældist 35 m/s hviða á mæli Veðurstofunnar.

Eiríkur Örn Jóhannsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofunni, segir slíkan mun ekki óeðlilegan því staðsetning mæla, svo sem hæð frá jörðu, skipti máli. Eins geti byggingar búið til strengi. „Þetta eru raunverulegar mælingar.“

Nokkrar brotnar rúður


Í þessari hviðu urðu nokkrar skemmdir. Hlynur Sveinsson, veðuráhugamaður í Neskaupstað, segist hafa heyrt um brotna rúðu í dráttarvél á Kirkjuból í Norðfjarðarsveit, 6 metra hátt grenitré brotnaði við Mýrargötu og í nágrenni leikskólans Eyrarvalla fauk gróðurhús á hliðina.

Þá brotnuðu rúður í bíl við Kjörbúðina, í anddyri Verkmenntaskóla Austurlands og í strætóskýli auk í matsal Nesskóla. Tólf ára sonur Hlyns var þar ásamt vini sínum, en í skólanum er líka ein veðurstöðvanna sem nam hviðuna. „Opnanlegt fag sogaðist út, síðan skelltist glugginn aftur og rúðan brotnaði,“ segir Hlynur.

Hlynur segist eiga von á að fleiri skemmdir eigi eftir að koma í ljós. „Ég heyrði af loki af heitum potti sem var á ferð á milli bíla við Nesskóla rétt áður en hviðan kom. Ég á von að það komi fleiri skemmdir.“

Miklar hviður


Að sögn Eiríks komu afar miklar hviður í Neskaupstað í gær þótt meðalvindhraðinn hafi ekki verið hár. Hlynur bætir við að slíkt sé þekkt í suðaustanátt eins og var ríkjandi í gær.

„Stærsta einstaka hviða sem hefur mælst á stöðvunum var í svipuðum aðstæðum árið 2022, hún var líka einstök upp á 61 m/s. Í svona áttum myndast strengir og suðaustanáttin kemur fram sem norðvestan hátt. Við sjáum hvít strik koma bæði út og inn fjörðinn. Utan við þessa fór vindurinn sjaldan yfir 40 m/s í gær.“

Miklar hviður á Breiðdalsheiði


Björgunarsveitir voru kallaðar út á Fáskrúðsfirði og Stöðvarfirði í gær þar sem þakplötur voru að fjúka. Bátur björgunarsveitarinnar á Fáskrúðsfirði losnaði upp eftir að armur af bryggjunni brotnaði. Þar voru hviður um 37 m/s samkvæmt mælum Veðurstofunnar.

Veðurmælir á Breiðdalsheiði vakti athygli fyrir 87 m/s hviðu. Veðurstofan telur öruggt að sú mæling sé röng. Þar mældust líka hviður upp á um 55 m/s, ein í gær og ein á sunnudag auk tæplega 50 m/s hviðu í gær. Þær eru trúverðugri sérstaklega frá í gær þar sem mikill vindur var á þeim tíma.

Aftur er spáð aftakaveðri á morgun og hefur Veðurstofan gefið út appelsínugula viðvörun frá klukkan 16:00. Almannavarnir funda eftir hádegi og er nánari upplýsinga að vænta eftir það.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.