Helst skemmdir á Stöðvarfirði í nótt

Almennt var lítið að gera hjá austfirskum björgunarsveitum í nótt. Þó bíða nokkrar tilkynningar sem huga þarf betur að þegar birtir. Flest verkefni sem tilkynnt hafa verið frá í gærkvöldi voru á Stöðvarfirði.

Slökkvilið Fjarðabyggðar tók að sér að tryggja þakskegg sem losnað hafði á húsi á Stöðvarfirði um klukkan eitt í nótt. Þar slitnaði líka raflína að sunnanverðu í firðinum. Tilkynnt var að bílskúr hefði fallið saman. Að honum verður nánar hugað þegar birtir. Í bænum mældist 57 m/s hviða um kvöldmat í gærkvöldi.

Á Egilsstöðum var björgunarsveitin kölluð út upp úr klukkan tíu í gærkvöldi vegna þakplatna sem voru að fjúka. Því verkefni lauk um miðnætti. Eftir það róaðist veðrið eystra heldur. Tré féll á hús í bænum og verða aðstæður þar skoðaðar frekar þegar birtir. Við Kleinuna brotnaði fánastöng.

Í Hamarsfirði var flutningabíll nærri farinn út af. Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu bíða nokkrar tilkynningar eystra þess að þær verði kannaðar frekar þegar bjart verður orðið en ekki þótti ástæða til að kalla út mannskap í nótt.

Almannavarnir hafa beint því til íbúa að vera ekki á ferðinni fyrr en veðrið gengur niður. Rauð viðvörun er í gildi fram undir klukkan 18:00. Skólahald fellur alls staðar niður auk þess sem ýmsar verslanir, matsölustaðir og þjónustustofnanir hafa tilkynnt um lokanir meðan veðrið gengur yfir.

Íbúar virðast hlíta tilmælunum. Tilfinnanlega færri voru á ferli en á venjulegum morgni. Á móti var milt að koma út í morgungustinn. Víða eystra er vel yfir 10 stiga hiti en mesti hiti sem mælst hefur á landinu síðan um miðnætti var á Eskifirði, 14,5°C.

Mynd úr safni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.