73 km af raflínum tíu árum fyrr í jörðu
Lagningu 73 km af raflínum á Austurlandi í jörð og umbreytingu í þrífasa rafmagn verður flýtt um áratug, miðað við áætlun ríkisstjórnarinnar um innviðauppbyggingu sem kynnt var í morgun.Ríkisstjórn Íslands kynnti í morgun tillögur til að styrkja innviði landsins í kjölfar fárviðrisins sem gekk yfir landið 10. og 11. desember síðastliðinn.
Tillögurnar sem kynntar voru í morgun skiptast í 540 aðgerðir sem kosta um 900 milljarða. Stóran hluta þessara aðgerða má þegar finna í ýmsum áætlunum, svo sem samgönguáætlun eða kerfisáætlunum raforkufyrirtækja, en þó er 27 milljörðum veitt aukalega fram til ársins 2030 til að flýta völdum framkvæmdum.
Á þeim tíma á meðal annars að ljúka framkvæmdum við ofanflóðavarnir. Ekki voru gefnar út frekari tímasettar framkvæmdaáætlanir í morgun um þær, sérstök nefnd vinnur að því.
Óveðrið í desember olli víðtæku rafmagnsleysi víða um land. Einna verst varð ástandið á Norðurlandi enda er á það bent í skýrslunni að svæði með varaafl, eins og Vestfirðir og Austfirðir, hafi staðið betur að vígi en Norðurland.
Aðgerðir til að styrkja varaafl og dreifikerfi raforku eru áberandi í aðgerðapakkanum. Meðal annars er lagt fjármagn til að flýta fyrir lagningu raflína í jörðu og þrífösun dreifikerfisins.
Á Austurlandi eru 73 km af rafstrengjum sem verða lagðir í jörðu á næstu fimm árum sem í eldri áætlunum var ætlað að leggja á árunum 2025-2036. Að auki verður þeim 9 km, sem leggja átti í jörðu á næstu fimm árum flýtt innan þess tímabils.
Pétur Þórðarson, aðstoðarforstjóri Rarik, segir að ekki sé búið ákveða endanlega framkvæmdum á hvaða svæðum verði flýtt en það liggi nokkuð ljóst fyrir. Markmiðið verði að ná til allra stærri notenda sem taldir eru hafa þörf fyrir þriggja fasa raforku, svo býla þar sem stunduð er iðnaðarstarfsemi, stærri ferðaþjónusta og kúabúskapur.
Af þeim 9 km sem voru á áætlun en verður flýtt má nefna svæði eins og Fell, ofanverðan Skriðdal, sunnanverðan Seyðisfjörð, norðanverðan Fáskrúðsfjörð, Vopnafjörð og milli Stöðvarfjarðar og Breiðdals.
Hvað varðar dreifikerfi Landsnets eru þar talin upp verkefni eins og Neskaupstaðarlínu 2, sem á að vera tilbúin í sumar, lagningu 2ja km af Eskifjarðarlínu í jarðstreng og að koma línunni yfir Hellisheiði eystri í jörðu sem á að vera lokið árið 2021. Öll þessi verkefni hafa verið á áætlun sem unnið er eftir.
Að auki stendur að byggja yfir tengivirkin á Eyvindará á Fljótsdalshéraði og Stuðlum í Reyðarfirði. Yfirbyggingar hafa ekki verið á 10 ára áætlun, en verður flýtt. Fram kemur að byrjað verði á tengivirkinu á Eyvindará. Þá stendur til að byggja nýtt tengivirki á Hryggstekk í Skriðdal árið 2027.
Frá viðgerðum Landsnets í Skriðdal í desember. Mynd: Landsnet