Haraldur Ólafsson: Loftslagsbreytingar eru staðreynd

haraldur olafsson nordgenEkki þýðir að halda því fram að loftslagsbreytingar séu ekki til staðar þótt allar spár gangi ekki eftir. Spálíkön eru misgóð en alla jafna kjósa vísindamenn að fara varlega í niðurstöðurnar. Í sunnanverðri Evrópu eru þegar farnar að sjást afleiðingar hlýnunar jarðar á skógrækt.

Þetta kom fram í máli Haraldar Ólafssonar, veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands, á norrænni skógræktarráðstefnu sem haldin var á Hallormsstað fyrir skemmstu en meginþema hennar voru áhrif loftslagsbreytinga á skógrækt.

Haraldur segir að við veðurspár séu í gangi 30-50 spálíkön og þar af séu fimm betri en önnur. Áreiðanlegast sé þó að hafa meðaltöl úr sem flestum spálíkönum. „Spálíkönin geta verið ónákvæm en loftslagsbreytingar eru staðreynd,“ sagði Haraldur.

Veturnir hlýna meira en sumrin

Á árunum 2021-2050 er útlit fyrir að hitaaukning verði meiri að vetrum en sumri til hérlendis en að meðaltali hlýni um tvær gráður á tímabilinu. Einnig sé útlit fyrir að vindstyrkur aukist þótt það verði ekki mikið. Mögulegt er að hlýnun efli skógvöxt hérlendis.

Hann telur að veturnir verði harðastir í janúar, febrúar og mars. Eins gætu hlýir kaflar í vetrarlok með kulda í kjölfarið orðið algengari sem skaðað gæti gróður.

Erfiðast er að spá fyrir um breytingar á úrkomu þar sem hún er staðbundnust. Líklegast sé að hún aukist á Austurlandi til fjalla en minnki við ströndina. Einnig sé líkur á að blautsnjór sem festist á trén og getur brotið þau aukist. „Menn reyna að vera varkárir í spám sínum,“ sagði Haraldur.

Nokkuð hefur verið rætt um tíðari ofsaveður út af breytingunum en áður. Haraldur segir ofsaveðrin stafa af nokkrum samverkandi þáttum í veðurkerfunum. „Stormar verða meira í umræðunni. Það er fleira fólk á ferðinni og á stöðum þar sem það var ekki áður.“

Tíðari þurrkar og skógareldar

Ekki var eingöngu fjallað um útlitið hérlendis á ráðstefnunni en fjöldi erlendra fyrirlesara mætti á hana. Útlit sé fyrir þurrari sumur í sunnanverði Evrópu sem skaði tré verulega. Þeirra áhrifa gætir nú þegar við Miðjarðarhafið þar sem skógareldar eru orðnir tíðari.

Hlýnunin gæti aukið framleiðni á kaldari svæðum. Erfitt er samt að spá um það. Frostið herðir trén og óvíst hvað gerist þegar því sleppir. Þá breiðir ýmis óværa sem herðar á skóga víðar úr sér í heitara loftslagi.

Á þeim svæðum þar sem menn sjá þegar áhrif breytinganna taka menn þær frekar með í reikninginn í áætlanagerð. Menn rækti til dæmis aðrar tegundir en áður og velji sterkari tegundir þar sem von er á tíðari stormum. „Menn hafa alltaf þurft að takast á við óvissu þannig að getan er til þess,“ sagði Joanne Fitzgerald frá evrópsku skógræktarstofnunni.

„Það þarf að mæta loftslagsbreytingum með áætlanagerð,“ sagði Torfinn Kringlebotn, svæðisstjóri skógræktar í Hedmark í Noregi.

Þar er nú mikil umræða um innfluttar tegundir en Norðmenn horfa ekki bara til nýtingar viðar heldur einnig kolefnisbindingar. „Norskur skógariðnaður er ekki tilbúinn í snöggar breytingar.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar