Gistihúsið á Egilsstöðum stækkar: Fjósið víkur fyrir ferðamönnum

gulli jonasson egilsstodumFramkvæmdir eru hafnar við viðbyggingu við Gistihúsið á Egilsstöðum. Með nýbyggingunni bætast við ný og glæsileg gestamóttaka, heilsulind, 30 herbergi og lyftuhús.
Gunnlaugur Jónasson hótelstjóri segir mikla þörf vera fyrir þessa viðbót.

„Við höfum verið að hugsa um að byggja þetta hús ansi lengi og þetta er líklega teikning nr. 4 eða 5 sem við erum búin að gera. Við höfum verið fullbókuð öll sumur og núna strax bíða margir hópar sem vilja komast inn hjá okkur.

Við erum að færa okkur aðeins inn á nýjan markað því með þessari byggingu getum við tekið við hópum sem við höfum átt aðeins í brasi með. Fólk er með mikinn farangur og í þessu gamla húsi eru brattir stigar sem geta verið erfiðir og það hafa aukist kvartanir vegna þeirra.“

En með nýjum framkvæmdum þarf stundum eitthvað eldra að víkja. Í tengslum við framkvæmdirnar verður svonefnt Pétursfjós rifið. Pétur þessi var afi Gunnlaugs og sonur Jóns Bergssonar og Margrétar Pétursdóttur sem byggðu gamla húsið og hófu þar gistirekstur.

„Það er verið að taka fjóshlutann en við ætlum að reyna að halda hlöðunni. Það er alltaf viss söknuður að missa eitthvað eins og það og síðan var erfitt að taka niður falleg tré hér í garðinum. Það var ekki skemmtilegur dagur en það er vonandi að í staðinn rísi eitthvað fallegt.“

Gunnlaugur fer ekkert í launkofa með kostnaðinn af framkvæmdinni. „Þetta er stór pakki. Kostar einhversstaðar í kringum 300 milljónir. Við gátum fengið þrjá banka til að fjármagna framkvæmdirnar og höfum samið við einn þeirra svo að það er búið að ganga alveg frá fjármögnuninni.“

Hótelstjórinn á Egilsstöðum er bjartsýnn á framhaldið en viðurkennir að í augnablikinu sé hann nokkuð stressaður. „Það er alltaf stress á þessu stigi, því þetta verður að ganga og vera tilbúið fyrir sumarið. En vonandi gengur þetta bara allt vel.“

petursfjos 10
 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar