Friðrik Brynjar dæmdur í 16 ára fangelsi: Þykir ekki eiga sér neinar málsbætur
Friðrik Brynjar Friðriksson var í dag dæmdur í 16 ára fangelsi fyrir að hafa ráðið Karli Jónssyni bana í íbúð hans á Blómvangi 2 á Egilsstöðum aðfaranótt 7. maí. Dómarar mátu frásögn hans í lykilatriðum ótrúverðuga og sögðu hann ekki eiga sér neinar málsbætur.
Friðrik Brynjar hefur allan tíman borið því við að hann muni ekki eftir að hafa ráðist að Karli með hníf og því ekki játað á sig sök. Við skýrslutökur hefur hann þó sagt að „í ljós alls“ fyndist honum „mjög líklegt“ að hann hefði banað Karli.
Karli var ráðinn bani með tveimur djúpum stungum í hjartastað en morðingi hans gekk síðan berserksgang og stakk hann alls 92 sinnum. Ekki tókst að tengja Friðrik Brynjar með óyggjandi hætti við morðvopnið. Dómarar töldu þó líklegt að hnífurinn væri úr innbúi Karls eftir „trúverðugan“ framburð vinkonu hans fyrir dómi.
Ölvun kann að hafa valdið misskilningi
Karl bauð Friðrik inn til sín að kvöldi 6. maí. Friðrik hafði þá drukkið frá því fyrir kvöldmat og fór á milli íbúða í Blómvangi í leit að áfengi. Friðrik Brynjar sagðist hafa reiðst Karli eftir orð hans um kynferðislegan áhuga á börnum sem beindust meðal annars að dóttur Friðriks Brynjars.
Í dóminum segir að ölvun beggja kunni að hafa „sett mark sitt á þau og valdið misskilningi.“ Þótt framburður Friðriks Brynjars um þetta atriði hafi verið stöðugur hafi ekkert fundist sem styðji hann, þrátt fyrir ítrekaða leit. Fremur er litið svo á að Friðrik hafi haft „ásetning til að vinna slíkt tjón sem raun varð á.“
Við skýrslutöku sagði Friðrik Brynjar að Karl hefði sig „sætan eða myndarlegan eða huggulegan“ og komið upp að sér „eins og hann ætlaði að kyssa mig.“ Friðrik Brynjar hefði farið á klósettið til að pissa en þegar hann hafi komið aftur hafi samtalið „breytt um gír“ og Karl farið að „ýja að einhverjum óþverra“ um börn og unglinga.
Friðrik Brynjar segir Karl hafa minnst á dóttur hans og þá hafi hann „algjörlega snappað.“ Hann segist hafa slegið til Karls, hrint honum í hægindastól og síðan strunsað út. „Eins og eitthvað hafi smollið í hausnum á mér og ég veit ekkert í rauninni hvað ég gerði við hann“
Sagðist hafa verið að burðast með Karl
Framburður Friðriks Brynjars er ýmist þá leið að hann hafi kýlt Karl eða löðrungað nokkrum sinnum þannig að Karl hafi fallið niður í hægindastól sinn. Friðrik hafi síðan rokið á dyr en snúið aftur um hálftíma síðar. Aðkoman þá hafi „ekki verið geðsleg.“
Við skýrslutökur í málinu sagði Friðrik Brynjar að Karl hefði verið í eða við hægindastólinn þegar hann kom aftur. Hann hefði „pumpað“ Karl eða mundi eftir að hafa verið að „burðast“ með hann út.
Framburður hans breyttist hins vegar við aðalmeðferð. Þá sagðist Friðrik Brynjar hafa komið að Karli liggjandi við svalahurðina. Hann hefði tekið í hendur hans eða axlir og lyft honum upp. Þannig skýrði hann tilkomu blóðs úr Karli sem fannst á buxum hans og sokkum.
Blóðferlasérfræðingar sem gáfu skýrslur fyrir dómi gátu ekki útilokað að blóðið hefði á þennan hátt getað klesst í föt Friðriks Brynjars. Sérfræðingarnir útilokuðu allir að lík Karls hefði legið í einhverjar mínútur annars staðar en þar sem Friðrik Brynjar kom að því.
Lítill vafi um sekt
Í blóðslóð í íbúð Karls fundust meðal annars þófaför hunds. Hundur Friðriks var með í för og þótt ekki tækist að tengja rekja sporin til hundsins segir í dóminum að ekkert bendi til þess að annað dýr hafi verið á vettvangi.
Ekkert hafi komið fram um að Karl ætti sér óvildarmenn og sjálfsmorð útilokað. Að auki þorni blóðslóðin fljótt og því sé útilokað að önnur manneskja hafi verið á ferð í íbúð Karls um það leiti sem morðið var framið.
Þótt dómurinn telji ekki útilokað að blóðið hafi kámast í föt Friðrik Brynjars á þann hátt sem hann sjálfur lýsir þykja breytingar á framburði og hversu hans óljós hann sé um stöðu og staðsetningu Karls þegar hann kom aftur inn í íbúðina afar hæpnar. „Álit dómsins að vafi um sekt ákærða í máli þessu sé harla lítil.“
Framburður þvert á gögn málsins
Í dóminum segir að framburður Friðriks Brynjars um þau atriði sem skipti máli sé hvorki stöðugur né trúverðugur. „Það sem mestu skiptir þó er að framburður ákærða um atvik í íbúðinni, eftir að sú deila reis við brotaþola sem hann hefur lýst, hefur bæði verið óljós og tekið margvíslegum breytingum.“
Framburður hans fékk enga stoð í þeim gögnum sem rannsóknarlögreglumenn eða aðrir sérfræðingar lögðu fram. „Mest um vert er að framburður ákærða fer í bága við þá staðreynd sem ljósmyndir sýna glögglega og rannsóknarlögreglumenn og sérfróð vitni hafa borið um á einn veg.“
Ótrúverðugt að minnið batni þegar frá líður
Við aðalmeðferð málsins í lok ágúst sagði Friðrik Brynjar að hann hefði smám saman verið að gera sér skýrari mynd af atburðarás næturinnar. Í dóminum kemur fram að lýsingar Friðriks Brynjars á henni hafi orðið ítarlegri eftir að einangrunarvist hans lauk.
Ekki er talið trúverðugt að minni hans hafi batnað löngu eftir atburðinn. Nærtækara sé að minnið litist af samtölum við aðra og lestri málsgagna, líkt og kom fram í skýrslu geðlæknis. Minnisleysið er helst talið stafa af mikilli áfengisneyslu en ljóst er að Friðrik var með „alvarlega áfengiseitrun“ rétt fyrir miðnætti 6. maí.
Neyðarlínusímtalið bendir til sektarkenndar
Nóttina örlagaríku hringdi Friðrik Brynjar sjálfur í Neyðarlínuna og taldi sig hafa drepið mann. Í dóminum segir að þótt viðbrögð manna í ölvunarástandi geti verið „órökrétt“ verði ekki framhjá því litið að viðbrögð Friðriks Brynjars „bendi sterklega til þess að hann hafi fundið til sektar.“ Það samræmist illa þeim fullyrðingum því að hann hafi aðeins löðrungað Karl.
Fyrst var tekin skýrsla af Friðriki Brynjari að kvöldi 7. maí. Hann nýtti sér þá mest réttinn til að tjá sig ekki. Hann neitaði til dæmis að tjá sig um símtalið við Neyðarlínuna þótt honum hefði verið sagt að endurrit væri til af því. Fyrr í þeirri skýrslutöku sagðist hann telja að hann hefði hringt í sambýliskonu sína en ekki Neyðarlínuna.
Á sér ekki málsbætur
Friðrik Brynjar var handtekinn að morgni 7. maí og hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan. Sá tími dregst frá fangelsisvistinni. Hann var einnig dæmdur til að greiða tæpar fjórar milljónir króna í málskostnað. Þetta er sú refsing sem saksóknari í málinu fór fram á og í samræmi við aðra dóma í íslenskum morðmálum.
Við ákvörðun refsingarinnar er horft til þess að gögn málsins benda til þess að atlagan hafi verið „ofsafengin og hrottaleg“ en jafnframt að brotaþoli hafi nær engum vörnum getað komið við. Tilraunir til að afvegaveiða lögreglu þykja síst til að milda refsingu hans en hann kannaðist ekki við að hafa hringt þegar lögreglu bar að garði aðfaranótt 7. maí. „Hann þykir ekki eiga sér málsbætur,“ segir orðrétt í dóminum.
Friðrik Brynjar er 25 ára gamall, uppalinn á Suðurlandi. Hann flutti til Austurlands í janúar á þessu ári og hafði búið á Egilsstöðum í mánuð þegar atvikið átti sér stað.
Þrír héraðsdómarar kváðu upp dóminn. Dómurinn var kveðinn upp í dómssal héraðsdóms Austurlands klukkan hálf þrjú í dag. Friðrik Brynjar mætti ekki sjálfur og verjandi hans boðaði forföll. Saksóknari málsins mætti ekki heldur en fulltrúi frá sýslumanninum á Seyðisfirði sat í hans sæti. Af dómurum málsins var Hildur Briem, dómari við Héraðsdóm Austurlands, ein á svæðinu og las upp dómsorðið.