Nýr vegur opnaður til Vopnafjarðar: Skiptir miklu máli að fá loksins nútímalegan veg

vegagerd vopni2 webInnanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, opnaði á miðvikudag formlega nýja vegtengingu við Vopnafjörð. Um er að ræða tæplega 60 km vegagerð sem tengir Vopnafjörð við hringveginn um Norðausturveg. Sveitarstjórinn segir nýja veginn mikinn feng fyrir Vopnfirðinga.

Norðausturvegurinn frá Hringvegi til Vopnafjarðar er 49 km langur en auk þess var lögð svo kölluð millidalaleið, eða Hofsárdalsvegur sem er sjö km langur. Hann tengir saman Hofsárdal og Vesturárdal. Nýi vegurinn liggur um Vesturárdal en áður lá tengingin við Vopnafjörð um Hofsárdal.

„Það er ljóst að þetta skiptir gríðarlega miklu máli að fá loksins nútímalegan veg af Hringveginum og niður í þéttbýlið okkar,“ sagði Þorsteinn Steinsson, sveitarstjóri á Vopnafirði í samtali við Austurfrétt.

Breytingar á veginum hófust þegar Hringvegurinn var frá Möðrudal á Fjöllum í áttina að Vopnafirði fyrir rúmum áratug. Haustið 2011 var Norðausturvegurinn tilbúinn og opnaður fyrir umferð. Vinna við millidalaleiðina dróst nokkuð, meðal annars vegna gjaldþrots upphaflega verktakans auk þess sem vegtenging við þéttbýlið í Vopnafirði var kláruð í sumar. Heildarkostnaður verksins er um 3,2 milljarðar króna.

„Við erum ákaflega þakklát að það hefur tekist að halda áfram þessu verki og ljúka því þrátt fyrir þrengingar í efnahagsmálum þjóðarinnar,“ segir Þorsteinn.

„Það er mikill fengur fyrir samgöngur og aukið öryggi fyrir alla sem um þessar leiðir þurfa að fara að losna við hinar miklu og erfiðu Burstarfellsbrekkur sem oft á tíðum hefur reynst mikill þröskuldur fyrir vegfarendur.“

Þorsteinn vonast einnig til þess að nýja vegtengingin, sem þegar allt er talið styttir leiðina í Egilsstaði um 18 kílómetra, fjölgi ferðamönnum á Vopnafirði. „Það má búast við að það verði meiri umferð en verið hefur og verði gríðarleg lyftistöng fyrir ferðaþjónustuna.“

Löngum hefur verið rætt um jarðgöng á milli Héraðs og Vopnafjarðar. Aðspurður um hvort vegurinn í þeirra stað svarar Þorsteinn.

„Sú tenging sem mestu myndi bylta væru jarðgöng á milli Vopnafjarðar og Héraðs. Þau myndu stytta leiðina verulega og hún yrði öll á laglendi.

Við höfum sagt að við styðjum þær ályktanir sem samþykktar hafa verið á aðalfundum Sambands sveitarfélaga á Austurlandi um jarðgangamál og næstu kosti í þeim og við fögnum því að nú séu hafnar framkvæmdir við jarðgöng frá Eskifirði til Norðfjarðar.“

Að lokinni borðaklippingu, sem allir þingmenn Austurlands auk ráðherrans og vegamálastjóra tóku þátt í, var efnt til kaffisamsætis í Miklagarði. Við það tilefni færðu félagar úr æskulýðsfélagi kirkjunnar, Kýros, forsætis- og innanríkisráðherra vinavikuboli og gáfu þeim knús.

Myndir: Vegagerðin

vegagerd vopni3 webvegagerd vopni4 webvegagerd vopni5 webvegagerd vopni6 webvegagerd vopni7 web
vegagerd vopni1 web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar