Gert ráð fyrir 117 milljóna hagnaði af rekstri Vopnafjarðarhrepps: Engin ný lán tekin

vopnafjordur 2008 sumarGert er ráð fyrir tæplega 117 milljóna króna hagnaði af rekstri Vopnafjarðarhrepps á næsta ári. Nokkur ár er síðan sveitarfélagið tók síðast lán en unnið hefur verið að niðurgreiðslu skulda síðustu ár og stefnt er að því að halda það áfram.

Þetta kemur fram í fjárhagsáætlun hreppsins sem lögð var fram til fyrri umræðu í sveitarstjórn fyrir viku. Samkvæmt sjóðsstreymi áætlunarinnar er gert ráð fyrir 116,7 milljóna króna hagnaði af sjóðum A og B hluta á árinu. Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri verði 178,5 milljónir þegar tekið hefur tillit til afskrifta, verðbóta, söluhagnaðar og annarra stærða.

Nokkur ár eru síðan sveitarfélagið tók síðast lán og ekki er gert ráð fyrir neinni lántöku árið 2014. Gert er ráð fyrir afborgunum lána upp á 53,9 milljónir.

Skuldir sveitarfélagsins hafa á síðustu árum lækkað úr 200% af veltufé í 101% árið 2012. Ráðgert er að þetta hlutfall verði komið í 70,6% árið 2014 en samkvæmt sveitarstjórnarlögum má hlutfallið ekki vera hærra en 150% og hafa sveitarfélög þá 10 ár til að ná settu marki.

„Breyting þessi verður að teljast afrek,“ segir í tilkynningu frá Þorsteini Steinssyni, sveitarstjóra. „Árangur af þessu tagi gefur sveitarfélaginu verulegt andrými inn í framtíðina til þess að sinna skyldum sínum vel og sjá til þess að byggja upp og viðhalda mannvirkjum sveitarfélagsins með ásættanlegum hætti án þess að taka lán.

Stefna sú, sem sett er fram í áætluninni, mun til lengri tíma litið skila betri og meiri þjónustu til íbúanna en áður hefur verið unnt að veita. Gleðilegt er að geta nýtt fjármuni sem áður fóru í fjármangskostnað til þess að byggja upp betri þjónustu við íbúa og fyrirtæki í sveitarfélaginu.“

Gert er ráð fyrir að handbært fé hækki um tæpar 38 milljónir króna, fari úr 85 milljónum í 123,3 milljónir.

Talsvert svigrúm í þriggja ára áætlun

Í þriggja ára ætlun sveitarfélagsins sem lögð var fram við sama tækifæri er gert ráð fyrir að hreint veltufé frá rekstri verði um og yfir 180 milljónir. Það á að duga fyrir fjárfestingum og niðurgreiðslu lána.

Ekki er gert ráð fyrir nýjum lánum þótt ráðast þurfi í „talsverðar fjárfestingar sem brýnt er að vinna á hverjum tíma,“ að því er kemur fram í samantekt sveitarstjórans.

Gert er ráð fyrir að handbært fé verði orðið rúmar 300 milljónir króna árið 2017 og afborganir lána verði innan við 50 milljónir það ár.

„Af þessu sést að svigrúm sveitarfélagsins til frekari fjárfestinga eða fjárfrekra aðgerða er talsvert umfram það sem ráðgert er. Auk þess væri mögulegt að greiða lán hraðar niður en áætlunin sýnir.

Með þessu móti er farin varfærin leið og miðað við að eiga borð fyrir báru komi upp óvænt útgjöld, sem ekki eru fyrirséð eða ef forsendur fjármála þjóðarskútunnar bresta eins og við erum brennimerkt af eftir fjármálakrísuna sem við höfum upplifað frá árinu 2008.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar