Þriggja stunda rafmagnsleysi á Stöðvarfirði í gær: Viðgerðarflokkar að störfum til klukkan sex í morgun
Rafmagnslaust var á Stöðvarfirði í þrjár klukkustundir í gærkvöldi. Lélegt skyggni torveldaði leit viðgerðarflokka að biluninni auk þess sem áhersla var lögð á að bjarga línum frá frekari skemmdum af völdum ísingar. Varaaflstöð sem er á staðnum var ekki gangsett.„Við þær aðstæður sem voru í gærkvöldi tekur tíma að komast á staðinn. Síðan þurfa menn að átta sig á hvar bilunin er en jafnframt að verja línur til að ekki fari fleiri niður,“ segir Örlygur Jónasson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs RARIK.
Rafmagn fór af á Stöðvarfirði um klukkan hálf átta í gærkvöldi. Þar sem bilun var á línu frá aðveitustöð var ekki hægt að slá þorpinu inn með fjarstýringum.
Því voru vinnuflokkar frá Egilsstöðum og Fáskrúðsfirði sendir af stað til að leita að biluninni. Hitinn í gærkvöldi á Austfjörðum var um frostmark og þungum, blautum snjó kyngdi niður og hlóðst á raflínur.
„Það er oft erfitt að leggja mat á hvernig hlutirnir eru. Reglan er sú að þegar um ísingu er að ræða er áherslan á að verja þær línur sem uppi eru þótt svæði séu straumlaus. Ef margar línur fara niður lengist straumleysið.“
Á Stöðvarfirði er 500 KW dísilrafstöð en hún var ekki gangsett í gærkvöldi. Örlygur segir að tíma viðgerðarmanna hafi verið betur varið í að verja línurnar sem uppi voru.
„Að sinna henni hefði kostað nokkra menn sem voru dýrmætari í öðrum verkefnum. Rafstöðin ræður heldur ekki við nema hluta þéttbýlisins þannig að það hefði stytt straumleysið hjá sumum en getað lengt það hjá öðrum ef hún hefði verið sett í gang.“
Stöðfirðingar fengu rafmagn á ný um klukkan hálf ellefu í gærkvöldi. Bilunin var í línu inn úr þéttbýlinu í sumarhús innan við bæinn. Þau eru enn án rafmagns en viðgerðarflokkar RARIK voru að störfum á svæðinu til klukkan sex í nótt við að berja ísingu af línum.
Örlygur segir að ísing hafi hlaðist á rafmagnslínur allt frá Mjóafirði og suður á Stöðvarfjörð í gærkvöldi. Lína til Mjóafjarðar frá Seyðisfirði bilaði og því hefur varaaflstöð séð Mjófirðingum fyrir rafmagni í um sólarhring. Ekki var leitað að biluninni í gær en viðgerðarflokkur fer fljótlega af stað til að leita að biluninni.