Rostungaárið mikla: Einn enn heimsótti Mjóafjörð
Aldir eru síðan jafn margir rostungar heimsóttu Ísland og gert hafa í ár. Fimmta dýrið sást í Mjóafirði fyrir skemmstu og sá sem fyrstur mætti til Reyðarfjarðar í júní hefur nánast haldið til við landið síðan.Rúmar tvær vikur eru síðan ungur rostungur sást í Mjóafirði þar sem hann lét vel um sig fara við fiskeldiskvíarnar. Sjónarvottar segja dýrið ungt, trúlega 2,5 ára miðað við tannvöxtinn.
Ungur rostungur sást einnig við Skálanes í Seyðisfirði í sumar en annað dýr er talið hafa heimsótt Mjóafjörð.
Fyrsti rostungurinn sást í Reyðarfirði þann 17. júní. Hann ber nafnið Sölvi og er vel þekktur í Færeyjum. Hann virðist hafa verið ánægður með Íslandsdvölina því hann kom aftur hingað um miðjan september.
Ekki er vitað um ferðir hans síðustu tvær vikurnar en þann mánuð sem hann dvaldi hér í haust hélt hann að mestu til í Reyðarfirði en hann synti einnig norður að Langanesi.
Fyrr í sumar synti hann meðfram suðausturströndinni og heimsótti meðal annars Berufjörð og Jökulsárlón.
Þá sáust einnig dýr á Skjálfandaflóa og Borgarfirði í haust. Talið er að þar hafi tveir rostungar bæst í Íslandsvinahópinn.
Ekki eru til heimildir um fleiri rostunga við Íslandsstrendur síðan á átjándu öld. Sérfræðingar segja mögulegt að stofninn sé orðinn sterkari en áður en bráðnun íss á norðurslóðum geti einnig valdið því að rostungarnir fari frekar á flakk en áður.
Rostungurinn makindalegur í Mjóafirði. Mynd: Albert Geirsson