Vilhjálmur: Seyðfirðingar hafa ekkert heyrt frá Smyril Line

vilhjalmur jonsson sfk mai12Vilhjálmur Jónsson, bæjarstjóri Seyðisfjarðarkaupstaða, segir forsvarsmenn bæjarins ekkert hafa heyrt frá skipafélaginu Smyril Line, móðurfélagi Norrænu, um hvert markmið þeirra með viðræðum við fulltrúa nágrannasveitarfélagsins Fjarðabyggðar sé.

„Þetta mál er bara að opnast. Þeir hafa ekki sett sig í samband við okkur eða látið vita. Við vitum lítið annað en að skipafélagið hefur beðið um viðræður," sagði Vilhjálmur í samtali við Austurfrétt í kvöld.

Eins og Austurfrétt greindi frá í dag óskuðu forsvarsmenn Smyril Line eftir viðræðum við fulltrúa Fjarðabyggðar um hugsanlega móttöku ferjunnar Norrænu. Einkum er þar horft til vetrarþjónustu en Fjarðarheiðin hefur reynst farartálmi fyrir farþega jafnt sem flutninga með ferjunni.

„Vegagerðin hefur lagt sig fram um að þjónusta heiðina en mögulega verður þetta einn af þeim þáttum sem vekja athygli á hvers konar ófremdarástand er hér í samgöngumálum," segir Vilhjálmur en Seyðfirðingar hafa lengi barist fyrir göngum undir Fjarðarheiði.

Bæjarráð Seyðisfjarðar kom saman til reglubundins fundar í kvöld. Vilhjálmur staðfesti að málefni ferjunnar hefðu verið rædd en sagði að ráðið hefði á þessari stundu aðeins óskað eftir frekari gögnum um málið.

Vilhjálmur ræddi við forsætisráðherra, Sigmund Davíð Gunnlaugsson í morgun ásamt fleiri Seyðfirðingum. Vilhjálmur segir þá hafa notað tækifærið til að hitta á þingmann kjördæmisins sem kom austur til að tala á atvinnuráðstefnunni Auðlindin Austurland. Framtíð ferjunnar hefði verið rædd en hún ekki verið aðalmálið.

Ljóst er þó að ferjan skiptir atvinnulíf Seyðfirðinga gríðarlegu máli. „Menn hafa verið að byggja hér upp í ferðaþjónustu eftir áföll í sjávarútvegi og fleirum greinum. Ferjar og siglingar leika þar lykilhlutverk."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar