Aðeins tekið upp á flugi yfir hafi
Eftirlitsflygildi, sem staðsett er á Egilsstaðaflugvelli á vegum Landhelgisgæslunnar, tekur ekki upp myndefni þegar flogið er yfir landi. Íbúar í næsta nágrenni flugvallarins hafa verið hugsi yfir umfangi eftirlitsins.Nokkuð hefur borið á fyrirspurnum íbúa í Fellabæ og Egilsstöðum um heimildir flygildisins en þeir hafa lýst því sem svo að flygildið hafi sveimað yfir húsagörðum í þéttbýlinu. Af þessu hafa skapast umræður um hversu miklar heimildir séu fyrir fluginu og myndbandsupptökum úr því.
Í svari við fyrirspurn Austurfréttar, segir Auðunn Kristinsson, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar, að allar nauðsynlegar heimildir séu til staðar fyrir fluginu.
„Um er að ræða löggæslu og eftirlitsflug á hafinu við Ísland og er aðeins verið að taka upp þegar vélin er við eftirlit, þ.e. eingöngu þegar hún er á flugi yfir hafinu.
Eðli málsins vegna er hinsvegar kveikt á myndavélunum við flugtak og lendingu svo flugmenn vélarinnar geti flogið henni, en þá er aftur á móti ekki verið að taka upp neitt myndefni,“ segir Auðunn.
Það myndefni sem tekið sé upp við eftirlit er vistað hjá gæslunni og rekstraraðila flygildisins. „Með það er farið í samræmi við lög og reglugerðir um persónuvernd.“
Flygildi hefur verið staðsett á Egilsstöðum frá því um miðjan apríl. Það átti að vera staðsett þar í um þrjá mánuði sem þýðir að veru þessu lýkur seinni hluta júlí.