„Aðsóknin miklu meiri en okkur óraði fyrir“
„Þetta var bara lítið fræ sem varð svo allt í einu risastórt,“ segir Hákon Hildibrand, frumkvöðull verkefnisins Neskaupstaður - Art Attack 2017, sem hlaut hæsta styrkinn í fyrri úthlutun ársins úr menningar- og viðurkenningasjóði SÚN.
Art Attack 2017 er listamannadvöl í Neskaupstað sem fer af stað um miðjan júlí og hlaut verkefnið fimm milljón króna styrk. „Verkefnið er sprottið upp úr vinnuhóp sem heitir Bærinn okkar Neskaupsstaður og hittist reglulega. Þar hefur verið mikil umræða um hvernig við „kvikkstörtum“ bænum, aukum sköpun, skreytum hann, bætum og komum honum rafrænt á kortið. Upphaflega vorum við Daniel Byström, sem hefur unnið þetta með mér, aðeins að spá í skreytingarpartinum en hugmyndin vatt fljótlega upp á sig. Við sóttum um styrk hjá SÚN sem við fengum og hann munum við nýta til þess að vera með vinnustofur fyrir listamenn, allsstaðar að úr heiminum,“ segir Hákon.
„Það bara sprakk eitthvað út“
„Aðsóknin varð miklu meiri en okkur óraði fyrir. Við bjuggumst vissulega við að fá einhverjar umsóknir en alveg eins að þurfa að fylla síðustu plássin sjálfir. En, það varð aldeilis ekki raunin, það bara sprakk eitthvað út og við fengum um 40 umsóknir í þau níu pláss sem við gátum boðið. Af þeim eru um 25 umsóknir af því kaliberi sem okkur datt ekki einu sinni í hug að við myndum sjá. Margir umsækjenda eru prófessorar og háskólakennarar og allir skiluðu inn hugmyndum af því hvað þeir vildu gera.
Við áttum í stökustu vandræðum með að velja og fengum svo auka styrk fyrir þrjá í viðbót hjá Fjarðabyggð og voru þeir þrír sem lögðu mesta áherslu á stjórnkerfið valdir. Við erum að vonast til þess að ná styrkjum fyrir tvo í viðbót, en eins og staðan er í dag verða þetta 17 einstaklingar í 12 plássum, en í sumum þeirra vinna fleiri saman.“
Heillandi að verða partur af samfélaginu
Fyrsti hópurinn kemur 15. júlí og þeir koma svo hver af öðrum, alltaf um miðjan mánuð og í upphafi mánaðar. „Þannig skarast hóparnir eftir hálfa dvöl og því skapast skemmtilegt flæði og samvinna milli þeirra. Síðasti hópurinn fer í lok september, en þá verður uppskeruhátíð sem ræðst bara mikið af því hvaða verkefni verða unnin.
Við spurðum umsækjendur hvað það væri sem hefði fengið þá til þess að sækja um og algengasta svarið var að það sem heillaði væri að verða virkur þátttakandi í samfélaginu, en yfirleitt í svona starfi þá eru þeir frekar hluti af ákveðinni byggingu, en ekki samfélaginu. Það er einmitt stærsti hlutinn af þessu og íbúar geta tekið virkan þátt, en dæmi um verkefni er danshópur, skapandi skrif og skemmtileg götulist og á hverju tímabili verða opnar vinnustofur þar sem hægt er að fylgjast með og taka þátt. Þetta verður bara alveg brjálæðislega skemmtilegt og við getum ekki beðið eftir að starta þessu.“
Heildarupphæð styrkja 21 milljón króna
Um fyrri úthlutun ársins hjá SÚN er að ræða og að þessu sinni var 24 styrkjum úthlutað og nam heildarupphæð þeirra 21 milljónum króna. Veittir eru styrkir í nokkrum flokkum og eru flokkarnir menning, menntun og íþróttir fyrirferðarmiklir.
Hæstu styrkina í þessari úthlutun hlutu eftirtaldir: íbúasamtökin Bærinn okkar 5 milljónir vegna listamannheimsókna, Neistaflug fjölskylduhátíð 3 milljónir, Golfklúbbur Norðfjarðar 2,5 milljónir til tækjakaupa og Nesskóli 5 milljónir í tækjakaup vegna raungreinastofu.
Samvinnufélag útgerðarmanna á eignarhlut í Síldarvinnslunni hf. og nýtir stóran hluta af árlegum arði af þeirri eign til að styrkja samfélagsverkefni í heimabyggð. Auk áðurnefndra styrkja hefur SÚN nýlega sett 60 milljónir í endurbætur á félagsheimilinu Egilsbúð og 52,5 milljónir, ásamt Síldarvinnslunni, í endurbætur og klæðningu á Norðfjarðarflugvelli.