Afmarkaðra jarðhitauppstreymi við Djúpavog en gert var ráð fyrir
Jarðhitauppstreymi á jarðhitasvæðinu við Djúpavog er mun afmarkaðra en fræðingar hafa gert ráð fyrir fram til þessa. Það staðfesta sérstakar mælingar Íslenskra orkurannsókna (ISOR) frá því í vor.
Leitað hefur verið að heitu vatni við Djúpavog um langa hríð en boranir í vetur reyndust árangurslausar. Óskuðu HEF-veitur liðsinnis ISOR vegna þessa en þar á bæ búa menn yfir sérstökum mælingarbíl. Voru myndaðar og mældar fjórar holur á svæðinu og að ósk HEF setti ISOR allar þekktar upplýsingar af svæðinu upp í sérstakt þrívíddarlíkan sem sést á meðfylgjandi mynd.
Líkanið leiðir í ljós að hitauppstreymi er afmarkað mjög og fylgir sprungufleti með norðaustur til suðvesturstefnu sem hefur haft þær afleiðingar að þrátt fyrir tilraunir til að skera sprunguflötinn og komast í hita hafi það ekki gengið eftir þó sprungan sé skorin.
Slík líkön hjálpa mikið varðandi næstu skref í jarðhitaleit en hjá HEF er þó tiltekið að líkanið noti aðeins þekktar upplýsingar til að búa til sem eðlilegasta og líklegasta mynd af raunstöðunni. Þeim fylgi þó óneitanlega töluverð óvissa og sérstaklega á auknu dýpi þar sem þekktar upplýsingar eru af skornum skammti.
Innan HEF-veitna ætla fræðingar að leggjast vel yfir líkanið nýja og í kjölfarið taka ákvarðanir um næstu skref í jarðhitaleitinni við Djúpavog.