Áframhaldandi gæsluvarðhald í Norðfjarðarmáli

Karlmaður á fimmtugsaldri hefur verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til 1. nóvember vegna gruns um tengsl hans við andlát hjóna í Neskaupstað þann 22. ágúst síðastliðinn.

Maðurinn var handtekinn samdægur og hefur sætt gæsluvarðhaldi síðan. Núverandi gæsluvarðhald átti að renna út á morgun, föstudag.

Í tilkynningu lögreglunnar á Austurlandi segir að rannsókn málsins sé í fullum gangi og miði vel. Framundan sé mikil vinna við að vinna úr gögnum og það taki tíma. Ekki sé frekari upplýsinga að vænta frá henni að svo stöddu vegna málsins.

Austurfrétt hefur þó fengið staðfest að gæsluvarðhaldsúrskurðirnir til þessa hafi verið á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Um gæsluvarðhald segir í lögum að sakborningur sé aðeins úrskurðaður í gæsluvarðhald ef rökstuddur grunur sé um að hann hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing liggur við.

Ekki má þó halda mönnum lengur í gæsluvarðhaldi en 12 vikur, nema ákæra sé gefin út eða brýnir rannsóknarhagsmunir krefjist þess. Miðað við það hefur saksóknari frest til 14. nóvember til að gefa út ákæru.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar