Vindmylluáform við Lagarfossvirkjun aftur á rekspöl

Áform um byggingu tveggja vindmylla af hálfu Orkusölunnar skammt frá Lagarfossvirkjun í Múlaþingi eru aftur komin á rekspöl eftir nokkurt hlé.

Verkefnið ekki nýtt af nálinni en það var í byrjun árs 2018 sem þessar hugmyndir komu fyrst fram. Þá vildi Orkusalan, sem rekur meðal annars Lagarfossvirkjun kanna hagvæmni vindorku á svæðinu.

Til að byrja með stendur til að byggja 50 metra hátt könnunarmastur til að mæla nákvæmlega vindhraða, vindáttir og aðrar mögulegar breytur á þessu svæði til að ganga úr skugga um fýsileika þess að reisa þar vindmyllur. Verði þær niðurstöður jákvæðar hyggst Orkusalan hefja byggingu tveggja vindmylla hvers rafmagnsframleiðsla færi beint inn á orkunetið við virkjunina.

Óskir um breytt deiliskipulag til að fyrirtækið gæti hafist handa voru komnar á ról hjá Fljótsdalshéraði rétt áður en það sveitarfélag var sameinað öðrum undir hatti Múlaþings fyrir rúmu ári síðan. Magnús Kristjánsson, framkvæmdastjóri Orkusölunnar, segir við Austurfrétt að bæði sameiningin og svo Covid í kjölfarið hafi mikið til fryst allar þær áætlanir síðan þá.

Múlaþingi barst svo fyrir skömmu sama erindi frá fyrirtækinu um endurskoðun deiliskipulags við Lagarfoss og hugmyndin því komin á dagskrá að nýju.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar