Neitaði sök í manndrápsmáli
Maðurinn sem ákærður er fyrir að hafa orðið eldri hjónum að bana í Neskaupstað þann 22. ágúst síðastliðinn neitaði sök við þingfestingu málsins í dag. Hvorki verjandi né sækjandi óskuðu eftir yfirmati á matsgerð sem liggur fyrir dóminum þar sem niðurstaða hennar þykir óvenju skýr.Þingfesting málsins fór fram í Héraðsdómi Austurlands í dag. Þangað mættu þó aðeins dómstjóri og dómritari því sækjandi, lögmaður barna þeirra látnu og ákærði, ásamt verjanda, tóku þátt í gegnum fjarfundabúnað.
Aðspurður af dómara kvaðst ákærði í málinu, karlmaður á fimmtugsaldri, neita sök. Verjandi hans vinnur að greinargerð þar sem nánari afstaða mannsins er útlistuð. Von er á að hún verði tilbúin í lok næstu viku þegar til stendur að halda þinghald í málinu.
Maðurinn er einnig ákærður fyrir brot á vopnalögum með því að hafa þann 12. maí síðastliðinn haft í fórum sínum hníf með 15 sm. löngu blaði er lögregla hafði afskipti af honum á Egilsstöðum. Hann játaði sök þar en fór fram á að honum yrði ekki gerð refsing.
Óvenju skýr niðurstaða um sakhæfi í matsgerð
Dómari spurði hvort sækjandi eða verjandi færu fram á yfirmat á matsgerð sem liggur fyrir dóminum. Í úrskurði Landsréttar um gæsluvarðhald ákæra er vitnað í mat geðlæknis sem segir manninn hafa stjórnast af alvarlegu geðrofi og séu veikindi hans langvinn. Til að hafa stjórn á þeim þurfi hann vistun á viðeigandi stofnum.
Ekki var nánar farið út í matsgerðina sjálfa í dag en saksóknari sagði að í henni kæmi fram skýr niðurstaða gagnvart 15. og 16. grein almennra hegningarlaga. Þær lagagreinar fjalla um sakhæfi fólks sem einhverra hluta vegna er ekki lengur sjálfrátt gerða sinna. Verjandi bætti við að niðurstaða matsins væri „óvenju afgerandi“ og væri að ræða langvarandi ástand sem næði aftur til ársins 2015.
Þá sögðust lögmennirnir ekki heldur telja þörf á yfirmati þar sem dómari ætlaði sér að kalla til meðdómara sem lögmennirnir teldu að væru sérfróðir á umræddu sviði. Dómari hafði áður skýrt frá því að hann ætlaði sér að kveða til meðdómara.
Þinghald opið að sinni
Dómari kallaði einnig eftir afstöðu lögmannanna til þess hvort þörf væri á að þinghald málsins, þar með talið aðalmeðferðin, yrðu lokuð. Hans mat til þessa var að ekki væri þörf á því. Enginn lögmannanna þriggja gerðu kröfu um lokun þinghalds að svo stöddu, en áskildu sér rétt til þess síðar með vísan í hagsmuni sakbornings og aðstandenda þeirra látnu. Meginregla íslensks réttarhalds er að þinghald dómsþings sé opið.
Ekki er útlit fyrir að aðalmeðferð málsins verði fyrr en í mars.