Áherslan á vopnfirska hamborgara
Sjoppan á Vopnafirði hefur fengið nýtt nafn og andlitslyftingu með nýjum eigendum. Þeir hafa sett stefnuna á að nýta afurðir af svæðinu til að skapa sér sérstöðu.Fyrir rekstrinum fara bræðurnir Steingrímur og Nikulás Árnasyni en fjölskylda þeirra hefur í yfir 30 ár rekið verslunina Kauptún. Nikulás segir rekstur sjoppunnar og kjörbúðarinnar geta farið vel saman.
„Hugmyndin kviknaði hjá okkur þegar sjoppan var auglýst til sölu því við sáum samlegðaráhrif með búðinni. Það er hægt að samnýta lagerinn og í framtíðinni getum við mögulega fært vöru hingað eða leikið okkur með opnunartímann.
Okkur finnst nauðsynlegt að hafa sjoppu og einhverja kvöldopnun á staðnum. Við verðum með opið til klukkan tíu á kvöldin fram á haust, svo skoðum við málin fyrir veturinn.“
Nefnd eftir afanum
Fjölskyldan tók við húsinu þann 1. mars og opnaði dyr sínar fyrir viðskiptavinum þann 23. mars. Þar á milli var ráðist í framkvæmdir innandyra, meðal annars hefur rými sjoppunnar verið opnað töluvert upp.
„Pabbi er smiður og er með verkstæði. Við smíðuðum afgreiðsluborð og innréttinguna sjálfir, máluðum, skiptum um ljós, settum upp nýjar hillur og fleira. Þetta voru stundum langir dagar og lítið um frí en okkur fannst borga sig að opna sem fyrst. Það er enn mikið eftir enn og ýmislegt að gerast bakatil.“
Sjoppan fékk líka nýtt nafn og heitir nú Robbasjoppa. „Það er í höfuðið á afa okkar, Róberti Nikulássyni, sem byggði húsið. Það versta var að okkur datt ekki nafnið í hug sjálfum. Það var maður utan úr bæ sem stakk upp á því og við ákváðum það kvöldið fyrir opnunina.“
Hagkvæmt að nota vörur úr heimabyggð
Nikulás boðar vopnfirskan brag á sjoppunni. „Áherslan verður á grillið og hamborgarana. Við erum með vopnfirskt kjöt úr sláturhúsinu hér og reynum að gera eins mikið sjálf og við getum. Við ætlum að hafa þetta einfalt og gott. Byrjunin er að gera góða hamborgara og bæta svo frekar við.“
Feðgarnir byrjuðu í fyrra að vera með vopnfirskar kjötvörur í Kauptúni. Viðtökurnar þar hafa verið góðar og Nikulás segir það vera rekstrarlega hagkvæmt að nota vörur úr heimabyggð.
„Við stefnum líka á að vera með grillkjöt hér sem við marinerum sjálfir. Að vera með kjöt úr heimabyggð minnkaði sóunina mikið. Áður vorum við alltaf að panta eftir veðurspá, síðan kom ekki sól, ekkert seldist og við urðum að henda kjötinu.
Nú tökum við úr frysti og framleiðum eftir þörfum. Flutningurinn er líka alltaf dýr þannig að þetta verða hagstæðari innkaup. Ég hugsa líka að Vopnfirðingar kunni að meta að vopnfirskar matvörur séu í boði.“
Steingrímur og Nikulás við afgreiðsluborðið í Robbasjoppu. Mynd: GG