Ákært fyrir tvöfalt manndráp í Neskaupstað
Karlmaður á fimmtugsaldri hefur verið ákærður fyrir að bana tveimur eldri hjónum í Neskaupstað að kvöldi 21. ágúst síðastliðins. Um leið er hann ákærður fyrir vopnalagabrot um miðjan maí.Ákæra embættis héraðssaksóknara í málinu er dagsett 19. desember en verður þingfest í Héraðsdómi Austurlands á mánudag.
Þar kemur fram að maðurinn hafi veist að hjónunum og slegið þau oft með hamri, einkum í höfuðið. Með því veitti hann þeim alvarlega áverka á höfði sem varð þeim að bana.
Hvaða kröfur gerir saksóknari?
Við manndrápi liggur að minnsta kosti fimm ára fangelsi en getur verið allt að ævilangt, samkvæmt almennum hegningarlögum. Saksóknari gerir varakröfu um að verði maðurinn ekki sakfelldur verði hann vistaður á viðeigandi stofnun.
Þar er vísað til lagagreina um að ekki eigi að refsa einstaklingi sem sé ófær til að stjórna gerðum sínum á verknaðarstundum, svo sem vegna geðveiki. Þar segir einnig að í sambærilegu ástandi séu mönnum refsað fyrir brot sitt, telji læknir að refsing geti borið árangur. Í enn annarri grein er talað um að sé einstaklingur sýknaður vegna ástands síns og refsing talin árangurslaus, megi vista viðkomandi til að tryggja að ekki sé af honum háski. Vægari úrræði eru til staðar eftir því sem hættan er talin minni.
Maðurinn var handtekinn í Reykjavík þann 22. ágúst á bíl þeirra látnu. Á klæðnaði hans var blóð úr fólkinu. Ákæruvaldið telur skýringar hans ótrúverðugar. Hann hefur verið í gæsluvarðhaldi síðan á öryggisgeðdeild. Geðlæknar hafa sagt manninn stjórnast af alvarlegu geðrofi og sé hann því hættulegur samfélagi sínu.
Með stóran hníf á almannafæri
Fjögur börn hinna látnu gera kröfur um miskabætur upp á 12 milljónir hvert. Bæði þau og saksóknari fara fram á að allur kostnaður vegna málsins verði felldur á manninn.
Maðurinn er um leið ákærður fyrir brot gegn vopnalögum með að hafa sunnudaginn 12. maí síðastliðinn verið á almannafæri við götuna Kaupvang á Egilsstöðum með hníf í fórum sínum. Blað hnífsins var 15 sentímetra langt.