Einn skólastjóri yfir grunn og tónlistarskóla á Vopnafirði
Stjórnun grunn- og tónlistarskóla á Vopnafirði hefur verið sameinuð á einni hendi. Sveitarstjóri segir hugmyndir um slíkt hafa verið ræddar um nokkurn tíma en breyttar aðstæður haf flýtt breytingunum.Frá og með nýliðnum áramótum er einn skólastjóri yfir báðum skólunum. Tillaga þess efnis var samþykkt í sveitarstjórn um miðjan desember en hún hafði fyrst verið rædd formlega innan nefnda sveitarfélagsins í nóvember.
Valdimar O. Hermannsson segir að slíkar hugmyndir hafi verið ræddar í nokkurn tíma, meðal annars fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar. Þá hafi verið farið að hylla undir starfslok Stephen Yates, tónskólastjóra, vegna aldurs.
Hann hafi síðan flýtt þeim af persónulegum ástæðum og hætt nú um áramótin. Þá hafi verið ákveðið að ráðast í breytingarnar. Þær voru samþykktar samhljóða á öllum stigum innan hreppsins.
Til þessa hafa verið skólastjóri og tónlistarkennari við tónlistarskólann sem hafa skipt með sér kennslunni. Áfram verða þar tveir starfsmenn sem kenna á hljóðfæri, en annar þeirra verður deildarstjóri.
Valdimar bendir á að skólastjórn grunn- og tónlistarskóla sé víða á einni hendi, einkum þar sem skólarnir deila húsnæði eins og á Vopnafirði. Hann segir hagræðingu ekki vera tilgang sameiningarinnar þótt eitthvert hagræði verði til lengri tíma litið.
Sigríður Elva Konráðsdóttir, skólastjóri Vopnafjarðarskóla, verður þar með skólastjóri beggja skólanna.
Mynd: Vopnafjarðarhreppur