Reynt að koma sorphirðunni í Múlaþingi aftur á rétt ról
Sorphirðuverktaki á vegum Múlaþings vinnur að því að vinna upp miklar tafir sem orðið hafa á sorphirðu. Á sumum svæðum eru liðnir meira en tveir mánuðir síðan hluti sorps var síðast hirt. Bilaður bíll setti strik í reikninginn í þessari viku.Á gamlársdag tókst loks að ljúka við að sækja pappa og plast í Hallormsstað og Velli. Að því hafði verið stefnt frá því í vikunni fyrir jól en ekki tekist vegna veðurs og forfalla starfsfólks verktaka.
Í gær stóð til að sækja plast og pappa á Djúpavog. Ekki vildi betur til en aðalbíll sorphirðuverktakans bilaði. Búið er að ganga frá kaupum á öðrum bíl sem á að vera notaður í dreifbýli og vera til vara í þéttbýli framvegis. Bíllinn er kominn austur og fór á Seyðisfjörð í dag til að sækja pappa og plast.
Blandaður úrgangur/matarleifar hafa ekki verið sóttar á Seyðisfjörð síðan í lok nóvember. Samkvæmt eldra sorphirðudagatali hefði átt að hirða þetta milli jóla og nýárs en það gekk ekki eftir. Í staðinn verður blandaður úrgangur sóttur á morgun.
Vegna bilunarinnar í bílnum seinkar sorphirðu á Djúpavogi fram á mánudag og þriðjudag. Það hefur þau áhrif að hirða á blönduðum úrgangi á Egilsstöðum og í Fellabæ frestast um tvo daga en hún átti að hefjast strax í byrjun næstu viku.
Nýtt sorphirðudagatal tók gildi um áramótin og er með því stefnt á að koma hlutunum á rétt ról. Samkvæmt yfirliti sem Austurfrétt í dag frá Múlaþingi er lengst liðið síðan blandaður úrgangur/matarleifar voru teknar í Skriðdal og á Völlum eða í kringum 22. október. Til stendur að sækja þennan úrgang á allra næstu dögum.
Um svipað leiti var pappír og plast síðast sótt í Fell, Fljótsdal og Úthérað. Vonast er til að það verði gert í næstu viku, háð því að bilun aðalbílsins sé ekki þeim mun umfangsmeiri eða keðjuverkandi.
Áhersla er á að nýta það svigrúm sem er til staðar til að bregðast við á þeim svæðum sem lengst hafa beðið eftir sorphirðu.