„Allir eru almennt glaðari í skólanum eftir bannið”
„Líklega var símabannið erfitt fyrir marga nemendur í upphafi, sérstaklega fyrstu vikurnar, en í vor var þetta bara orðið mjög eðliegt og allir eru sáttir,” segir Sebastían Andri Kjartansson, nemandi í grunnskóla Reyðarfjarðar, um bannið við almennri notkun snjalltækja sem gekk í gildi í grunnskólum Fjarðabyggðar þann 1. febrúar síðastliðinn.
Eins og greint var frá á Austurfrétt, gildir bannið í eitt ár til að byrja með og verða reglurnar endurskoðaðar í febrúar 2020. Samkvæmt þeim skulu nemendur ekki nota eigin snjalltæki, snjallsíma eða snjallúr, á skólatíma, hvorki í skólanum né á skólalóð.
Markmið bannsins er að bæta námsumhverfi og líðan nemenda. Ákvörðunin byggir meðal annars á greinargerð sálfræðinga Skólaskrifstofu Austurlands sem segja snjallsímanotkun barna og ungmenna sé of mikla. Þeir vísa til nýlegra rannsókna um að snjallsímanotkun hafi neikvæð áhrif á námsárangur, andlega og líkamlega heilsu og trufli tilfinninga- og félagsþroska.
Aukið var við afþreyingarmöguleika nemanda
„Ég get talið það á fingrum annarrar handar hversu oft við höfum þurft að hafa afskipti af nemendum eftir að bannið gekk í gildi,” segir Guðlaug Árnadóttir, aðstoðarskólastjóri, í samtali við Austurfrétt í gær. Samhliða símabanninu var aukið við afþreyingarmöguleika nemenda við skólann og meðal annars keypt borðtennisborð, þythokkíborð og borðspil í hverja skólastofu.
„Það var vissulega orðin sorgleg þróun að sjá nemendahópana streyma út úr stofum sínum í frímínútur og setjast saman í setustofurnar og grúa sig niður, sitt í hvert tækið, án þess að eiga orðaskipti. Núna masa þau saman, spila og eiga samskipti hvert við annað. Auðvitað fundum við fyrir því að hávaðastuðulinn fór upp til að byrja með, en það er ekkert annað en skemmtilegt,” segir Guðlaug.
Samskiptin eru orðin miklu meiri
Sebastían Andri er nýorðinn 14 ára gamall og var því að ljúka 8. bekk. „Það eru tveir sófar í setustofunni á unglingaganginum. Venjulegar frímínutur voru þannig að í öðrum þeirra sátu allir í símanum, annað hvort á Snapchat eða í einhverjum leik. Í hinum var fólk kannski að spjalla, en samt í símanum. Nú eru komin borðspil inn í hvern bekk, allavega á unglingastigi, þannig að nú er fólk er að spila og almennt að spjalla meira saman, samskiptin eru orðin miklu meiri. Ég held að það sé almenn ánægja með þetta núna og mér finnst skólinn hafa batnað við þetta. Það er skemmtilegra að eyða tímanum í að vera með krökkunum í stað þess að hanga í símanum. Mér finnst þessi breyting mjög góð og allir eru almennt glaðari í skólanum eftir bannið.”
Sjálfur segist Sebastían Andri vera dálítið háður símanum sínum. „Já, ætli það ekki, eins og margir. Þessi tæknivæðing er góð, en maður á ekki að eyða öllu lífi sínum í símanum.”