Álversrútan keyrði inn í snjóflóð
Vegurinn yfir Fagradal er lokaður eftir að snjóflóð féll á veginn þar í gær. Rúta með starfsmönnum Alcoa Fjarðaáls á leið til vinnu keyrði inn í flóðið. Engin slys urðu á fólki.Þetta staðfestir Dagmar Ýr Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi álversins. „Rútan keyrir inn í lítið snjóflóð sem féll úr Grænafelli. Flóðið var fallið þegar rútan kom þannig í raun keyrir hún inn í skafl og festist.“
Rútan var að koma frá Egilsstöðum með starfsmenn sem áttu að mæta til dagvinnu. Starfsfólkinu var hjálpað í gegnum flóðið en vegurinn er lokaður og fer rútan því ekki upp eftir aftur með starfsmenn sem voru að klára næturvakt. Þeim hefur verið komið fyrir á Reyðarfirði.
Úrhellisrigning hefur verið á láglendi á Austurlandi í morgun og hvassviðri en snjókoma til fjalla. Ófært er til Seyðisfjarðar, Borgarfarðar og um Hróarstungu auk þess sem Fagridalur er lokaður. Þungfært er í Jökulsárhlíð og þæfingur á Jökuldal, Jökuldalsheiði og Vopnafjarðarheiði. Von er á að veðrið gangi niður og stytti upp í hádeginu.