Ámælisverð vinnubrögð Vegagerðarinnar

Skipulagsstofnun telur Vegagerðina hafa gerst seka um ámælisverð vinnubrögð þegar tekið var meira efni úr Svartagilslæk í Berufirði en leyfi hafði verið fengið til. Stofnunin telur umhverfisáhrif efnistökunnar að mestu komin fram og ekki sé þörf á að meta umhverfisáhrif hennar sérstaklega.

Þetta kemur fram í ákvörðun stofnunarinnar um matsskyldu. Leitað var eftir áliti stofnunarinnar eftir að Djúpavogshreppur stöðvaði efnistöku í lækjarfarveginum í haust.

Þá hafði Vegagerðin þegar tekið 235.000 rúmmetra af efni úr námunni sem aðeins var leyfi til að nýta 90 þúsund rúmmetra úr. Vegagerðin óskaði eftir að taka allt að 284.000 rúmmetra í heildina. Efnið fór í nýjan veg yfir Berufjörð sem sigið hefur mun meira en áætlað var.

Samkvæmt lögum hefði átt að leita eftir áliti Skipulagsstofnunar um hvort efnistakan væri matskyld strax við 50 þúsund rúmmetra markið en það var ekki gert. Stofnunin telur vinnubrögð Vegagerðarinnar ámælisverð og brýnir að betur verið vandað til verka í framtíðinni. Í svari Vegagerðarinnar kemur fram að stofnunin sé þessu sammála og muni sinna tilkynningaskyldunni framvegis.

Í áliti Skipulagsstofnunar kemur fram að búið sé að raska tæplega 100 þúsund fermetra svæði. Umhverfisáhrifin séu að mestu óafturkræf en staðbundin og að mestu komin fram þannig ólíklegt sé að frekari efnistaka breyti nokkru um.

Farvegur lækjarins hefur breyst töluvert frá upphaflegu útliti og huga verði að því við frágang að útlit svæðisins verði sem náttúrulegast. Þá muni mikill framburður af vatnasviði lækjarins líklega fylla upp í námusvæðið með tíð og tíma. Sú frekari efnistaka sem Vegagerðin sótti um, allt 49 þúsund rúmmetrar, telst ekki hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Framkvæmdir í Berufirði hófst á ný í febrúar eftir að Vegagerðin lagði fram áætlanir um efnistöku úr öðrum námum á svæðinu. Þá hefur loks verulega hægst á sigi vegarins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.