Árshátíðum Fjarðaáls frestað
Ákveðið hefur verið að fresta árshátíðum Alcoa Fjarðaáls sem halda átti í marsmánuði vegna útbreiðslu kórónaveirunnar Covid-19. Fyrri hátíðin átti að fara fram um næstu helgi.Dagmar Ýr Stefánsdóttir, talsmaður Fjarðaáls, segir að ákvörðunin hafi verið tekin að höfðu samráði við sóttvarnalækni og yfirlækni Alcoa á heimsvísu.
„Ákvörðun sem þessi er ekki tekin af léttleika en okkur þykir þessi varúðarráðstöfun rétt í ljósi samfélagslegar ábyrgðar. Þessi stærsti vinnustaður Austurlands er með tengingar inn á velflest heimili á svæðinu og við leggjum okkar af mörkum í því að minnka líkur á smiti með því að fresta fjölmennum viðburðum sem þessum,“ segir Dagmar.
Þar sem starfsmenn Fjarðaáls vinna á vöktum er árshátíðinni tvískipt þannig að sem flestir geti mætt. Fyrri árshátíðin átti að vera næsta laugardag, 7. mars, en sú seinni 21. mars. Ekki hefur verið ákveðið hvenær árshátíðirnar fari fram.
Hátíðunum hefur í gegnum tíðina verið dreift milli nokkurra húsa á Austurlandi sem eru nógu stór til að hýsa hana. Að þessu sinni áttu hátíðirnar að vera í íþróttahúsinu í Neskaupstað. Búist var við um 300 manns á hvora árshátíð.