Áttatíu ára gamlir munur í húsvegg

„Ég ætlaði nú bara að fara upp og saga flísar sem ég er að vinna með en hugsaði að mig langaði að halda aðeins áfram að rífa það sem ég var var byrjaður á og það var þá sem ég fann þetta inn í vegg á miðhæðinni,“ segir Gunnar Viðar Þórarinsson, en hann fann 80 ára gamalt bréf og fleiri hluti inn í húsi sínu Brautarholti á Reyðarfirði í vikunni.


Gunnar Viðar keypti húsið árið 2010, en það var byggt árið 1922 og fullklárað árið 1925. Húsið var lengst af í eigu sömu ættarinnar en var komið úr henni þegar hann eignaðist það.

„Ég hef haft virkilega góða tilfinningu fyrir þessu húsi frá því ég kom hér fyrst. Ég hef aldrei trúað á neitt fyrirnáttúrulegt, en ég get varla annað í dag, en það hefur verið óvenjulega mikil gæfa í kringum mig síðan ég flutti hingað.“

Gunnar Viðar segir að herinn hafi verið með aðstöðu í kjallara hússins á sínum tíma. „Þetta var líklega einhverskonar stjórnstöð, í það minnsta kom ég ofan á sextán þátta símakapal þegar ég var að grafa frá húsinu á sínum tíma.“


Ekki fyrsti fundurinn í húsinu

Fundur Gunnars Viðars er fjölbreyttur, en þar má sjá ástarbréf, lyf, kleinujárn, sælgætis- og tóbaksumbúðir, nokkra hengilása og ýmislegt fleira.

„Miðað við dagsetningar þá er þetta dót á bilinu 75 til 80 ára gamalt. Það er svolítið sniðugt hversu mikið tengist tóbaksnotkun, þar fyrirtækið mitt snýr að því að fá fólk til þess að hætta að reykja,“ segir Gunnar Viðar, en hann rekur rafrettuverslunina Djáknann.

„Ég var búin að finna hér ýmislegt áður, meðal annars vínflösku sem mér var sagt að hefði verið í eigu Sölva, manns sem bjó hér í húsinu.“

Brautarholt

Brautarholt3

 

„Gef líf á hverjum degi“

Gunnar Viðar flutti á Reyðarfjörð frá Reykjavík árið 2008, en hann ætlaði aðeins að vera hér fram að jólum sama ár en er hér enn og ekkert á leiðinni í burtu. Lengst af vann hann hjá Alcoa Fjarðaáli en var með það að markmiðið að vera orðinn sjálfstætt starfandi fyrir þrítugt sem og hann gerði, en auk Djáknas rekur hann fyrirtækið Snjallviðgerðir. Hann er einnig mikill fasteignaáhugamaður og er með nokkrar eignir til leigu gegnum Airbnb.

„Þetta gengur miklu betur en ég hefði nokkurntíman ímyndað sér, sérstaklega Djákninn. Það besta er að ég gef líf á hverjum degi, en til mín leitar mikið af fólki sem nánast er á grafarbakkanaum vegna reykinga. Reykingar hafa alltaf farið gífurlega í taugarnar á mér, fjárskaði og almennur óþverri og tími. Pabbi var eitt af fyrstu markmiðunum mínum, en hann hætti á einni viku, maður sem hafði reykt frá 13 ára aldri til sextugs og er allt annar í dag.“

 

Gunnar Viðar Þórarinsson

Hér er síða Djáknans og hér er síða Snjallviðgerða.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar