Yfir 3000 undirskriftir komnar gegn sjókvíaeldi í Seyðisfirði
Yfir 3000 undirskriftir hafa safnast í átaki VÁ – félags gegn sjókvíaeldi í Seyðisfirði, þar sem skorað er á stjórnvöld að stöðva leyfisveitingu til sjókvíaeldis í Seyðisfirði. Frestur til að senda inn athugasemdir vegna rekstrarleyfis eldisins rennur út á mánudag.Klukkan ellefu í morgun höfðu tæplega 3100 manns skrifað undir undirskriftalista VÁ. Með undirskriftalistanum er skorað á stjórnvöld að stöðva leyfisveitingu til sjókvíaeldis í Seyðisfirði. Fyrir mánuði gáfu Matvælastofnun (MAST) og Umhverfisstofnun (UST) út leyfi fyrir allt að 10.000 tonna eldi, þar af 6.500 tonn á frjóum fiski. Kaldvík stendur að baki leyfunum.
Í texta með listanum segir að löggjöf og eftirlit með sjókvíaeldi sé í molum og ný ríkisstjórn hafi boðað úrbætur eða fulltrúar flokkanna lýst yfir vilja til að stöðva leyfisveitingaferlið í aðdraganda kosninga. Við slíkar kringumstæður sé fráleitt að úthluta leyfum. Þá er vísað til skoðanakannana sem hafa sýnt andstöðu 75% Seyðfirðinga við eldið og að 61% á landsvísu leggist á móti þeim.
Hvetja almenning til að senda inn athugasemdir við rekstrarleyfi
VÁ stendur líka að baki hvatningu til einstaklinga um að skila inn athugasemdum til Matvælastofnunar vegna leyfisveitingarinnar, en frestur til þess er til næsta mánudags 20. janúar. Félagið hefur á heimasíðu sinni birt athugasemd sem hægt er að afrita og senda inn. Textinn felur í sér áskorun um að rekstrarleyfið verði dregið til baka og umsókninni alfarið hafnað.
Þar er bent á mikla andstöðu meðal Seyðfirðinga og að eldið hafi áhrif á villta laxa í firðinum meðal annars með hættu á útbreiðslu laxalúsar. Þá er burðarþolsmat Hafrannsóknastofnunar, sem stærð eldisins byggir á, gagnrýnt þar sem ekki hafi verið tekið tillit til annarrar starfsemi í firðinum eða sjálfstætt mat lagt á eldissvæði. Eins sé stofnunin að endurskoða áhættumat erfðablöndunar á landsvísu í kjölfar þess að fjöldi laxa slapp úr Patreksfirði síðsumars 2023. Bent er á að nýtt mat eigi að vera tilbúið í mars og lýst að réttara sé að bíða eftir því.
Eins og í fyrri athugasemdum VÁ er fullyrt að kvíarnar ógni siglingaöryggi inn Seyðisfjörð og lendi meðal annars inn í geisla vita. MAST setti í leyfi sínu skilyrði um staðsetningar kvíanna gagnvart hvíta geislanum.
Vilja bíða eftir nýjum fjarskiptalögum
Þar er líka komið inn á Farice-1 fjarskiptastrenginn sem liggur inn Seyðisfjörð. Farice ehf., eigandi strengsins, gagnrýndi eldið á sínum tíma á þeim forsendum að ankeri eða slíkur búnaður gæti skemmt strenginn og þar með raskað dýrmætu sambandi Íslands við umheiminn. Að sama skapi lýsti félagið yfir trú á að lausn fyndist. Í rekstrarleyfinu eru gerðar kröfur um fjarlægð festinga kvía og skipaumferðar frá strengnum. Kaldvík hefur lýst yfir að hægt sé að hanna kvíarnar þannig þær rekist ekki á strenginn. Fyrri ráðherra fjarskiptamála hafði boðað ný lög og VÁ telur rétt að bíða þeirra.
Þá gagnrýnir VÁ ofanflóðahættumat fyrir svæðin og segir að ekki önnur náttúruvá, svo sem þörungablómi eða marglyttur, sé ekki tekin með í reikninginn. Í samantekt kemur einnig fram að erindi hafi verið sent Umboðsmanni Alþingis vegna meints vanhæfis lykilstarfsmanns í skipulagsvinnu fyrir eldið sem og rannsóknum á strandsvæðaskipulagi. Ekki eigi að veita leyfi fyrr en niðurstaða liggi fyrir til að koma í veg fyrir óafturkræft tjón á náttúru eða bótaskyldu.
Heimastjórn bendir á andstöðu Seyðfirðinga og neikvæð umhverfisáhrif
Rekstrarleyfið var tekið til umræðu á fundi heimastjórnar Seyðisfjarðar í síðustu viku. Þar bókaði einn fulltrúa, Jón Halldór Guðmundsson, áskorun til sveitarstjórnar Múlaþings um að standa með íbúum í málinu. Hann vísaði þar til andstöðu íbúa, efasemda um siglingaöryggi, neikvæð áhrif slysasleppinga og öryggi Farice-strengsins.
Meirihluti heimastjórnar vísaði til umsagnar sinnar frá í maí i fyrra um leyfisferlið. Í henni er komið inn á að eldið gæti haft í för með sér neikvæð umhverfisáhrif, þar á meðal erfðablöndun við villtan lax. Kallað er eftir að ýtrustu kröfum um eftirlit og vöktun verði framfylgt sem og að hugað verði að tillögum sem komið hafi fram í ferlinu til að draga úr neikvæðum áhrifum þegar leyfin verði gefin út.
Heimastjórnin bendir þar einnig á að frumvarp hafi komið fram um breytingar á fiskeldislögum á Alþingi. Í tengslum við það bendir meirihluti heimastjórnar á athugasemdir Ríkisendurskoðunar um að stjórnsýsla sjókvíaeldis hérlendis sé og veik og ekki tilbúin að takast á við mikinn vöxt greinarinnar. Bæta þurfi úr henni, meðal annars með að tryggja sveitarfélögum aukna aðkomu að skipulagi fjarða. Án slíkrar heimildar hafi þau ekki lagalegan rétt til aðkomu að málum sem varða atvinnuuppbyggingu á þeirra svæði. Vísað er til mótmæla Seyðfirðinga í því samhengi. Fundargerð heimastjórnar verður tekin til umfjöllunar á sveitarstjórnarfundi í dag.
Umsóknarferlið staðið í áratug
Árið 2012 var upphaflega gefið út starfsleyfi fyrir fiskeldieldi við Háubakka á Seyðisfirði. Heimilt var að ala þar 200 tonn. Fiskeldi Austfjarða eignaðist, forveri Kaldvíkur, eignaðist leyfið árið 2015. Háubakkar var meðal þeirra svæða sem sótt var um undir fiskeldi en dregið til baka. Rekstrarleyfið sem Matvælastofnun veitti þann 12. desember síðastliðinn byggir á umsóknarferli sem byrjaði sumarið 2014 þegar drög að matsáætlun umhverfisáhrifa voru kynnt.