Tveir handteknir vegna kannabisræktunar
Lögreglan á Austurlandi handtók á miðvikudagskvöld tvo einstaklinga á fertugsaldri, grunaða um fíkniefnamisferli.Í tilkynningu lögreglu kemur fram að ráðist hafi verið í húsleit að fengnum dómsúrskurði. Þar kom í ljós búnaður til kannabisframleiðslu og nokkuð magn plantna í ræktun. Fleiri ólögleg fíkniefni fundust einnig.
Yfirheyrslum yfir þeim handteknu lauk í gærkvöldi og var þeim sleppt að þeim loknum. Fram kemur að málið sé áfram í rannsókn og lúti meðal annars að framleiðslu fíkniefna og dreifingu.
Austurfrétt greindi í gærkvöldi frá aðgerð lögreglu við íbúðarhús á Seyðisfirði. Aðgerðum á vettvangi lauk seinni partinn í gær og stóðu því í tæpan sólarhring. Lögreglan veitir ekki frekari upplýsingar um málið á þessu stigi.