Bættar samgöngur lykilforsenda nýs sveitarfélags

Umfangsmiklar samgönguframkvæmdir eru forsenda þess að sú framtíðarsýn sem lagt er upp með í sameiningarviðræðum fjögurra sveitarfélaga á Austurlandi nái fram að ganga. Lagt er til að Landhelgisgæslan komi upp starfsstöð á Egilsstöðum.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í minnisblaði samstarfsnefndar um sameiningu Fljótsdalshéraðs, Djúpavogshrepps, Borgarfjarðarhrepps og Seyðisfjarðarkaupstaðar sem afhent var þingmönnum nýverið.

Í framtíðarsýn nefndarinnar er fjögur samgönguverkefni sett í forgang. Í fyrsta lagi göng milli Seyðisfjarðar og Fljótsdalshéraðs, sem auk þess að tryggja betri umferð myndi opna fyrir þann möguleika að leggja hitaveitu frá Egilsstöðum til Seyðisfjarðar.

Í öðru lagi að byggður verði upp heilsársvegur yfir Öxi, í þriðja lagi að Borgarfjarðarvegur verði lagður bundnu slitlagi og í fjórða lagi að flugvöllurinn á Egilsstöðum verði efldur, bæði sem gátt inn í landið og að innanlandsflug fáist á raunhæfu verði.

Í kafla um heilbrigðismál er enn fremur lagt til að á vellinum verði bækistöð sjúkraþyrlu auk þess sem þar verði starfsstöð Landhelgisgæslunnar á Austurlandi. Þá er því heitið að sjúkrabílar verði staðsettir í öllum byggðakjörnum.

Talað er um að þjónusta sýslumannsins á Austurlandi verði eflt með að viðhalda henni á Seyðisfirði og fjölga stöðugildum í afgreiðslu á Egilsstöðum.

Auk framlaga til samgangna á landi er lögð áhersla á að hafnarframkvæmdir á Seyðisfirði, á Djúpavogi til að mæta uppbyggingu í fiskeldi og Borgarfirði.

Vilja er lýst til að efla þjónustu við eldri borgara þannig að fólk geti búið alla ævi í heimabyggð og nýtt sveitarfélag verði leiðandi í að innleiða velferðarþjónustu fyrir eldri íbúa sem og börn og fjölskyldur.

Nýtt sveitarfélag yrði landfræðilega stærsta sveitarfélag landsins með fjóra byggðakjarna og umfangsmikið dreifbýli. Í vikunni hefur verið fundað með íbúum í kjörnunum fjórum og verður síðasti fundurinn á Egilsstöðum í kvöld. Hann hefst klukkan 18:00 og verður kynning á verkefninu í byrjun hans send beint út á netinu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.