„Bara hefðir sem koma í veg fyrir að stelpur vinni þessi störf“

Í tilkynningu frá Síladarvinnslunni segir að karlavígið við landanir úr uppsjávarskipum sé nú fallið. Lengi hafi verið litið svo á að landanir úr uppsjávarskipum væru karlmannsverk, en breyting hafi orðið á því að undanförnu á Seyðisfirði þar sem þrjár konur komu að löndun um helgina.

 

Þegar kolmunna var landað úr Bjarna Ólafssyni AK um síðustu helgi á Seyðisfirði var Guðlaug Vala Smáradóttir löndunarstjóri, Dóra Sigfúsdóttir starfaði í löndunarhúsinu og Elísa Björt Einarsdóttir vann í lest skipsins. Guðlaug hefur starfað í kringum landanir á Seyðisfirði í um fjögur ár og segir þetta ekkert síður vera fyrir konur en karla. „Þetta gekk vel, það kom allavega ekkert alvarlegt uppá. Þetta er ekkert eins síður fyrir konur en karla. Það er miklu frekar hugarfarið sem skiptir máli,“ segir Guðlaug.  

Guðlaug segist reyndar ekki vera alveg viss hvort einhver met hafi verið slegin en þykir allavega líklegt að þetta hafi verið í fyrsta skipti sem kona var löndunarstjóri og kona fór ofan í lest. „Ég veit ekki til þess að kona hafi farið áður ofan í lest, það getur auðvitað vel verið samt en ég veit ekki til þess. Það var hún Elísa og hún stóð sig mjög vel. Ég var rosa montin með okkur og að við værum þrjár. Elísa stóð sig alveg pottþétt betur margir strákar hafa gert, sem ég hef orðið vitni af.“

Guðlaug hvetur aðrar konur til að taka að sér svona störf. „Þær sem hafa áhuga hvet ég til að sækjast eftir þessu, þær eiga ekki að hika við það. Það eru bara hefðir sem koma í veg fyrir að stelpur vinni þessi störf. Þetta er náttúrulega vel borguð vinna og hún er erfið. Þetta er ekki vinna sem er allt árið, hún er vertíðabundin. Þannig að ef mann langar að taka þátt í vertíð þá er það um að gera. Mig langar að geta sagt þegar ég verð gömul kerling; Ég var nú á vertíð á Seyðisfirði. Það hafa allir einhverja góða sögu að segja sem hafa verið á vertíð og mér finnst forréttindi að geta fengið að vera með í því.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.