Bátur slitnaði upp í höfninni í Neskaupstað

Fimm tonna smábátur slitnaði upp úr smábátahöfninni í Neskaupstað og nótt og rak upp í hafnargarðinn. Krapaflóð hafa fallið á sunnanverðum Austfjörðum. Bílar fóru út af veginum um Fagradal í nótt.

Björgunarsveitin Gerpir í Neskaupstað var kölluð út um klukkan kortér yfir átta í morgun eftir að bátur hafði losnað upp í smábátahöfninni og rekið upp í hafnargarðinn austan við hana.

Félagar úr björgunarsveitinni tryggðu bátinn til að koma í veg fyrir skemmdir. Engar slíkar voru sjáanlegar í morgun fyrir utan einhverjar rispur.

Veðrið hefur heldur lagast eftir því sem liðið hefur á morguninn. Félagar úr björgunarsveitinni fóru af stað um hádegi til að huga betur á bátnum, sem væntanlega verður tekinn á land. Þeir þurftu ekki að sinna fleiri verkefnum í nótt.

„Það var töluvert hvasst og rokur þvert á bátana. Veðrið er ekki gengið niður, það koma enn rokur enn á milli, en ekkert á við það sem var í nótt og morgun.“

Tveir bílar fóru út af veginum yfir Fagradal. Ökumaður var einn á ferð í öðrum þeirra og sakaði ekki en hinn bíllinn var lítil rúta með níu farþegum. Björgunarsveitir aðstoðuðu þá til byggða. Ekki er vitað um slys á þeim. Hált og hvasst var á dalnum sem var lokað fyrir umferð í kjölfarið.

Krapaflóð á sunnanverðum Austfjörðum


Nokkur krapaflóð hafa verið skráð á vef Veðurstofunnar í Stöðvarfirði og Fáskrúðsfirði. Í Stöðvarfirði komu flóð niður bæði Innri-Einarsstaðaá og Vallá sem og úr Sauðadal í innanverðum firðinum. Síðasttalda flóðið fór yfir veg. Þrjú krapaflóð í sunnanverðum Fáskrúðsfirði féllu niður á vegi. Úrkoman á Ljósalandi í Fáskrúðsfirði er komin í 46 mm síðan klukkan 22 í gærkvöldi. Þá mældist ríflega 16 stiga hiti á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði.

Hringvegurinn milli Fáskrúðsfjarðar og Djúpavogs er lokaður. Í athugasemdum frá Vegagerðinni segir að það sé vegna aur- og krapaflóða og ótryggs ástands í fjallshlíðum. Aðstæður verða nánar skoðaðar í hádeginu. Hjá Veðurstofunni er skráð að fimm krapaflóðaspýjur hafi fallið yfir veg. Sú breiðasta sé 80 metrar á veginum.

Vatn flæðir yfir veginn í sunnanverðum Fáskrúðsfirði og milli Djúpavogs og Þvottár.

Óvissustig er enn í gildi vegna ofanflóða á öllum Austfjörðum. Lögreglan beinir því til fólks að vera ekki á ferli nærri giljum þar sem hætta er á slíkum flóðum.

Mynd: Björgunarsveitin Gerpir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.