Bátur slitnaði upp í höfninni í Neskaupstað
Fimm tonna smábátur slitnaði upp úr smábátahöfninni í Neskaupstað og nótt og rak upp í hafnargarðinn. Krapaflóð hafa fallið á sunnanverðum Austfjörðum. Bílar fóru út af veginum um Fagradal í nótt.Björgunarsveitin Gerpir í Neskaupstað var kölluð út um klukkan kortér yfir átta í morgun eftir að bátur hafði losnað upp í smábátahöfninni og rekið upp í hafnargarðinn austan við hana.
Félagar úr björgunarsveitinni tryggðu bátinn til að koma í veg fyrir skemmdir. Engar slíkar voru sjáanlegar í morgun fyrir utan einhverjar rispur.
Veðrið hefur heldur lagast eftir því sem liðið hefur á morguninn. Félagar úr björgunarsveitinni fóru af stað um hádegi til að huga betur á bátnum, sem væntanlega verður tekinn á land. Þeir þurftu ekki að sinna fleiri verkefnum í nótt.
„Það var töluvert hvasst og rokur þvert á bátana. Veðrið er ekki gengið niður, það koma enn rokur enn á milli, en ekkert á við það sem var í nótt og morgun.“
Tveir bílar fóru út af veginum yfir Fagradal. Ökumaður var einn á ferð í öðrum þeirra og sakaði ekki en hinn bíllinn var lítil rúta með níu farþegum. Björgunarsveitir aðstoðuðu þá til byggða. Ekki er vitað um slys á þeim. Hált og hvasst var á dalnum sem var lokað fyrir umferð í kjölfarið.
Krapaflóð á sunnanverðum Austfjörðum
Nokkur krapaflóð hafa verið skráð á vef Veðurstofunnar í Stöðvarfirði og Fáskrúðsfirði. Í Stöðvarfirði komu flóð niður bæði Innri-Einarsstaðaá og Vallá sem og úr Sauðadal í innanverðum firðinum. Síðasttalda flóðið fór yfir veg. Þrjú krapaflóð í sunnanverðum Fáskrúðsfirði féllu niður á vegi. Úrkoman á Ljósalandi í Fáskrúðsfirði er komin í 46 mm síðan klukkan 22 í gærkvöldi. Þá mældist ríflega 16 stiga hiti á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði.
Hringvegurinn milli Fáskrúðsfjarðar og Djúpavogs er lokaður. Í athugasemdum frá Vegagerðinni segir að það sé vegna aur- og krapaflóða og ótryggs ástands í fjallshlíðum. Aðstæður verða nánar skoðaðar í hádeginu. Hjá Veðurstofunni er skráð að fimm krapaflóðaspýjur hafi fallið yfir veg. Sú breiðasta sé 80 metrar á veginum.
Vatn flæðir yfir veginn í sunnanverðum Fáskrúðsfirði og milli Djúpavogs og Þvottár.
Óvissustig er enn í gildi vegna ofanflóða á öllum Austfjörðum. Lögreglan beinir því til fólks að vera ekki á ferli nærri giljum þar sem hætta er á slíkum flóðum.
Mynd: Björgunarsveitin Gerpir