Beðið með leyfisveitingu fyrir skógrækt við Eyri á Fáskrúðsfirði
Umsókn fyrirtækisins Yggdrasill Carbon um framkvæmdaleyfi til nytjaskógræktar við Eyri í Fáskrúðsfirði er í biðstöðu að svo stöddu sökum þess að ný veglína er fyrirhuguð um svæðið samkvæmt samgönguáætlun 2030 til 2034.
Umsókn um leyfi til skógræktar á svæðinu barst Fjarðabyggð í byrjun ágúst síðastliðinn en umhverfis- og skipulagsnefnd tók ekki afstöðu til málsins strax því samkvæmt aðalskipulagi sveitarfélagsins er ekki gert ráð fyrir skógræktarsvæði vestan megin Eyrar en Yggdrasill óskaði bæði eftir svæðum austan við og vestan eða alls 190 hekturum lands. Svæðið vestur af Eyri er formlega skilgreint sem landbúnaðarsvæði samkvæmt skipulagi.
Málið strandaði jafnframt vegna áætlana í ofangreindri samgönguáætlun en álits Vegagerðarinnar er beðið hvort ríkið eða sveitarfélagið þurfi hugsanlega að greiða bætur fyrir veglínuna ef af skógrækt verður.