Bílastæðagjöldin eru landsbyggðarskattur sem losna þarf við

Tillaga um áskorun til Isavia innanlandsflugvalla ehf. um útvíkkun undanþágu frá gjaldskyldu á bílastæðum við flugvöllinn á Egilsstöðum meðal þeirra mála sem liggja fyrir haustþingi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi sem sett var á Hallormsstað í morgun. Formaður SSA segir innanlandsflugið mikla hindrun í aðgengi Austfirðinga að þjónustu.

„Innanlandsflugið er einnig stór hraðahindrun sem hindrar aðgang okkar íbúa að sjálfsagðri þjónustu sem við borgum með okkar sköttum. Því tengt nefni ég þann landsbyggðarskatt sem lagður var á íbúa Austurlands með gjaldskyldu á bílastæðum við Egilsstaðaflugvöll. Austurland er ekki með víðtæka alhliða sérhæfða þjónustu á vegum ríkisins í bakgarðinum eins og til dæmis Akureyri býr svo vel að hafa og er mikilvæg hverju samfélagi.

Austurland er einnig, ásamt Vestfjörðum, skilgreint sem afar viðkvæmt svæði með tilliti til heilbrigðisþjónustu vegna þess hve dreifbýl svæðin eru og langt frá sérhæfðri þjónustu. Samt á að skattleggja leið okkar enn frekar við að sækja þá grunnþjónustu með gjaldskyldu bílastæða á Egilsstaðaflugvelli,“ sagði Berglind Harpa Svavarsdóttir, formaður SSA í setningarræðu sinni í morgun.

Austfirðingar hafna landsbyggðarskattinum


Hún sagði Austfirðinga „auðvitað vilja losna við þennan landsbyggðarskatt.“ Í drögum að ályktunum haustþingsins segir að þingið hafni „þeim landsbyggðarskatti“ sem lagður hafi verið á. Hann hamli „enn frekar för Austfirðinga sem neyðast til að sækja sér sérhæfða heilbrigðisþjónustu, menntun, menningu og aðra þjónustu á vegum ríkisins út fyrir landshlutann.“

Í ræðu sinni sagði Berglind Harpa að þær 14 klukkustundir, sem frítt er að leggja við völlinn, dygðu ekki til þar sem erfitt væri að fara fram og til baka með morgun- og kvöldflugi. Fyrsta skref í að aflétta gjöldunum væri að gera frítt að leggja við völlinn í 3-4 daga. „Þetta er mál sem brennur á hverjum íbúa.“

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, matvælaráðherra og þingmaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Norðausturkjördæmi, sagði í ávarpi sínu að þingmenn kjördæmisins hefðu verið samstíga í að mótmæla bílastæðagjaldinu og náðst hefði fram breyting þótt hún hefði ekki verið sú sem stefnt var að. Hún gagnrýndi gjaldtökuna meðal annars á þeim forsendum að á Egilsstöðum „væri ekki einu sinni boðlegt bílastæði“ og lýsti vonbrigðum með að ekki væri hægt að ná fram breytingum hjá opinberu fyrirtæki – en þannig væru málin.

Von á samgönguáætlun fyrir jól


Berglind Harpa kallaði eftir uppbyggingu innviða á Austurlandi í takt við framlag landshlutans til þjóðarbúsins, sem felast meðal annars í um fjórðungi verðmæta vöruútflutnings, og að Austfirðingar hafi orðið við ákalli ríkisins um að sameina sveitarfélög. Hún vék einnig að hugmyndum um breytingar á kosningum til Alþingis sem enn frekar geti veikt Austurland og landsbyggðarsvæði.

Hún sagði það hafa valdið Austfirðingum áhyggjum og vonbrigðum að samgönguáætlun skyldi ekki vera afgreidd frá Alþingi í vor. Ástæðan virtist vera umframkostnaður við gerð nýs vegar um Hornafjarðarfljót. Þar sem áætlunin var ekki afgreidd hefur verið beðið eftir nýjum útboðum.

Ingibjörg Ólöf Isaksen, fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis, situr í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, sagði ákveðnar forsendur hafa skort, svo sem gjaldtöku af umferð til framtíðar, til að hægt væri að klára samgönguáætlunar. Þess vegna hefði verið skynsamlegra og betra fyrir Austurland að bíða með afgreiðslu hennar því annars hefðu verkefni frestast.

Hún sagði ekki rétt að Hornafjarðarfljótið hefði stoppað önnur verk. Hins vegar væri staðan almennt sú að kostnaður hafi hækkað við verk. Nýr innviðaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, sé nú að uppfæra samgönguáætlunina og stefnt sé á að afgreiða hana á Alþingi fyrir jólahlé.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.