Blak: 66 stig í einni hrinu í leik Þróttar og Völsungs

Þróttur vann Völsung í oddahrinu þegar liðin mættust í úrvalsdeild karla í blaki í Neskaupstað um helgina. Fyrsta hrinan var ótrúleg þar sem úrslit réðust ekki í henni fyrr en eftir margfaldar upphækkanir.

Þróttur fór betur af stað í fyrstu hrinu en hún snérist síðan úr 8-5 í 9-12. Eftir það voru Húsvíkingar alltaf á undan upp í 22-24, þó aldrei meira en tveimur stigum. Fimm sinnum á þeim kafla jafnaði Þróttur en komst aldrei yfir.

Þróttur jafnaði í sjötta sinn í 24-24, síðan sjöunda skiptið í 25-25 áður en liðið komst loks yfir í 26-25. Eftir það komst Þróttur sex sinnum yfir en alltaf jafnaði Völsungur, uns Þrótti tókst að knýja fram 34-32 sigur.

Völsungur hafði yfirburði seinni hluta annarrar hrinu. Eftir að staðan var 10-12 skoraði Völsungur sjö stig gegn einu, komst í 11-19 og vann hana 13-25. Þróttur skoraði fyrstu fimm stig þriðju hrinu en átti aftur slæman kafla um hana miðja. Þar breyttist staðan úr 14-12 í 15-18 og Völsungur vann hana 19-25. Dæmið snérist loks við í fjórðu hrinu, Í stöðunni 11-9 skoraði Þróttur sex stig í röð, komst í 17-9, vann hana 25-16 og knúði fram oddahrinu.

Völsungur var yfir í byrjun hennar, en Þróttur jafnaði í 7-7 og komst yfir 8-7. Völsungur skoraði þá tvö stig í röð en Þróttur svaraði með tveimur. Eftir það var Þróttur yfir en Völsungur jafnaði þrisvar uns Norðfjarðarliðið vann 15-13.

Javier Mata og José Martin voru stigahæstir í liði Þróttar. Bæði lið félagsins eiga heimaleiki gegn KA um næstu helgi.

Mynd: Blakdeild Þróttar/Sigga Þrúða

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.