Blak: 66 stig í einni hrinu í leik Þróttar og Völsungs

Þróttur vann Völsung í oddahrinu þegar liðin mættust í úrvalsdeild karla í blaki í Neskaupstað um helgina. Fyrsta hrinan var ótrúleg þar sem úrslit réðust ekki í henni fyrr en eftir margfaldar upphækkanir.

Þróttur fór betur af stað í fyrstu hrinu en hún snérist síðan úr 8-5 í 9-12. Eftir það voru Húsvíkingar alltaf á undan upp í 22-24, þó aldrei meira en tveimur stigum. Fimm sinnum á þeim kafla jafnaði Þróttur en komst aldrei yfir.

Þróttur jafnaði í sjötta sinn í 24-24, síðan sjöunda skiptið í 25-25 áður en liðið komst loks yfir í 26-25. Eftir það komst Þróttur sex sinnum yfir en alltaf jafnaði Völsungur, uns Þrótti tókst að knýja fram 34-32 sigur.

Völsungur hafði yfirburði seinni hluta annarrar hrinu. Eftir að staðan var 10-12 skoraði Völsungur sjö stig gegn einu, komst í 11-19 og vann hana 13-25. Þróttur skoraði fyrstu fimm stig þriðju hrinu en átti aftur slæman kafla um hana miðja. Þar breyttist staðan úr 14-12 í 15-18 og Völsungur vann hana 19-25. Dæmið snérist loks við í fjórðu hrinu, Í stöðunni 11-9 skoraði Þróttur sex stig í röð, komst í 17-9, vann hana 25-16 og knúði fram oddahrinu.

Völsungur var yfir í byrjun hennar, en Þróttur jafnaði í 7-7 og komst yfir 8-7. Völsungur skoraði þá tvö stig í röð en Þróttur svaraði með tveimur. Eftir það var Þróttur yfir en Völsungur jafnaði þrisvar uns Norðfjarðarliðið vann 15-13.

Javier Mata og José Martin voru stigahæstir í liði Þróttar. Bæði lið félagsins eiga heimaleiki gegn KA um næstu helgi.

Mynd: Blakdeild Þróttar/Sigga Þrúða

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar