Halda fyrsta aðalfund Eiðavina um fimm ára skeið
Hollvinafélagið Eiðavinir sem hafa það á stefnuskránni helst að hefja þetta gamla skólasetur til vegs og virðingar á ný hefur auglýst sinn fyrsta aðalfund síðan árið 2019. Þar skal meðal annars ræða breytta stefnuskrá félagsins.
Þó engin formleg félagaskrá sé haldin af hálfu Eiðavina skipta þeir hundruðum að lágmarki sem vilja auka veg þessa merka staðar í fjórðungnum og eða eiga beinar tengingar til staðarins gegnum skólagöngu eða menningarstörf.
Að sögn Örvars Ármannssonar, sitjandi formanns, eru ástæður þess hve langt er milli aðalfunda af ýmsum toga.
„Þær eru nokkrar talsins. Covid-árin breyttu auðvitað ýmsu fyrir okkar félagsskap sem aðra. Þess utan voru reglur hertar um starfsemi slíkra félagasamtaka og það var nokkur þrautaganga að ganga frá þeim málum svo vel væri. Að síðustu var illa hægt að koma saman á Eiðum til fundar eftir að nýir eigendur tóku við og hófu þar framkvæmdir ýmsar. Nú er hins vegar lag orðið á ný að koma þar saman og ræða um framtíð félagsins og jafnvel gera stefnubreytingar með tilliti til nýrra eigenda og þeirra sýnar á hlutina á Eiðum.“
Aðalfundurinn verður haldinn í stórendurbættum hátíðarsal skólans þann 12. október og kemur jafnvel til greina að staðarhaldarar bjóði upp á kráarstemmningu með trúbador á sviði að fundi loknum ef nægur fjöldi fólks mætir til fundar.
Búið er að endurbæta og betrumbæta ýmislegt á Eiðum síðustu árin þó þeirri vinnu sé hvergi nærri lokið.