Bók um Gullver: „Taktu eina, Norður-Atlantshafið er ekkert grín“
Árin 2012 og 2013 fóru tveir listamenn frá Seyðisfirði í túra með flaggskipi bæjarins, Gullveri NS-12. Videóhljóðlistaverk þeirra með upptökum úr ferðinni hefur farið víða um heim og aukaefni sem tengist því er nú komið út í bókaformi.Upptökur Kristjáns Loðmfjörð og Konrads Korabiewski um borð í Gullveri fóru fram frá september 2012 fram í desember 2013. Auk þess að fara út með skipinu lögðust Kristján og Konrad í rannsóknavinnu og fengu meðal annars aðgang að dagbókum skipstjóra og nýttu kafla úr þeim í verk sitt.
Afrakstur vinnu þeirra, sem kallast NS-12, var svo frumsýndur á Seyðisfirði í júní 2014 í frystihúsinu með togarann við bryggjuna fyrir utan. Þegar gestir yfirgáfu sýninguna gengu þeir framhjá Gullveri með vélina malandi, líkt og hún gerði í verkinu en þessari uppröðun er í bókinni lýst sem „útvíkkuðum kvikmyndasal.“
Í verkinu les Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, upp úr dagbókunum og í bókinni er að finna viðtal rithöfundarins Kristínar Ómarsdóttur við hana. Vigdís ræðir þar lífshlaup sitt, sýn á samfélagið og áhugamál.
„Hver er ekki trúaður sem þekkir sjómann? Ef eitthvað gengur afar vel þá segi ég að við séum leidd áfram. Mér finnst þægilegt að fara í kirkju stöku sinnum; staðfesting trúarinnar veitir mér öryggi,“ segir hún meðal annars.
Bókin geymir einnig frásögn rithöfundarins Daniel Canty af dvöl sinni á Seyðisfirði og ferð með Gullveri.
„Klukkan átta er landgangurinn tekinn frá, lúgunni lokað. Í brúnni bíður skipstjórinn þess að heilsa verðandi sjómanni. Þótt sjóveikin úr síðustu ferð hafi hjaðnað, fer skipstjórinn í lyfjaskápinn og afhendir honum pillubox. „Taktu eina, Norður-Atlantshafið er ekkert grín.“
Ekki mótmæla. Í öðrum heimum gilda aðrar reglur. Héðan í frá er ómögulegt að greina innra flæði lyfjanna frá ytra vaggi sjávarins,“ skrifar Canty.
Anna Friz ritar kafla um gerð listaverksins og reynslu listamannanna af því. Þeir líta ekki bara á skipið sem mikilvægt atvinnutæki sem færi bænum björg í bú, heldur líka hljóðfæri og sameiginlegan bústað áhafnarinnar sem geymi vonir hennar og væntingar.
„Allir þeir sem búa um borð [í skipinu] gefa líkama sína og drauma á vald hins stöðuga en þó ótrausta sambands milli togarans og aldanna,“ skrifar hún.
NS-12 hefur verið sýnt víða um heim, meðal annars Kanada, Póllandi og Berlín í Þýskalandi en verkið var tilnefnt til Mart verðlaunanna þar í landi árið 2014. Bókin er gefin út af Hatje Cantz forlaginu í Berlín.
Gullver NS-12. Mynd: Ómar Bogason