Bubbi minnist verbúðar sem verið er að rífa á Eskifirði

Verið er að rífa þekkta verbúð á Eskifirði. Bubbi Morthens dvaldi þar um tíma sem farandverkamaður skömmu áður en hann varð þjóðþekktur fyrir plötu sína Ísbjarnarblús.

„Þetta var besti staður í heimi meðan ég bjó þar,“ segir Bubbi Morthens í samtali við Austurfrétt.

Það var Sveinn Guðjónsson verktaki sem vakti athygli á niðurrifi verbúðarinnar á Facebook síðu sinni. Verbúðin var nokkuð komin til ára sinna en hún var byggð árið 1963. Líflegar umræður urðu um helgina á Facebooksíðu Sveins.

Bubbi man eftir matráðskonunni sem eldaði ofan í mannskapinn í verbúðinni. „Bára sá um matinn og hann var æðislega góður,“ segir hann.

Meðal þess sem rætt er um á síðu Sveins er hvort lagið Stál og hnífur hafi verið samið í þessari verbúð. Bubbi segir svo ekki vera. „En ég samdi lagið Hrognin eru að koma í verbúðinni,“ segir hann. Það lag er einmitt að finna á plötunni Ísbjarnarblús.

Sigvaldi H. Ragnarsson segir á síðu Sveins: „Gamla Auðbjörg. Þarna var ég í minni fyrstu launuðu vinnu utan heimilis í síldarsöltun. Bjó á verbúðinni ásamt mörgum snillingum sumum landsfrægum þá og áttu eftir að verða það síðar. Ungur og saklaus sveitadrengurinn undraðist stundum undarlegt hátterni sumra á verbúðinni sem og framandi lyktar úr tóbakspípum, allt öðru vísi en Prins Albert lykt.“

Auðbjörg mun hafa verið nafnið á síldarplaninu fyrir framan verbúðina.

Hvað lífið í verbúðinni varðar segir Bubbi að það hafi verið...“bæði skrautlegt og gott.“

„Man eftir sænskri stelpu sem setti hring í annan nasavænginn á frídögum og menn ætluðu ekki að trúa sínum eigin augum. Þetta varð stórfrétt í bænum,“ segir Baldur Grétarsson og nefnir einnig að...„Halli, síðar bóndi á Út-Héraði, fór á hesti upp tröppurnar á verbúðinni, þurfti að jafna sakir við íbúa þar.“

Mynd: Facebook/Sveinn Guðjónsson.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.