Samið um sorphirðu í Fjarðabyggð
Búið er að skrifa undir samninga vegna sorphirðu í Fjarðabyggð, sem boðin var út nýverið. Alls bárust 24 tilboð í fjóra mismunandi verkþætti. Nýir verktakar taka við verkunum í vikunni.Fjarðabyggð ákvað síðasta haust að endurnýja ekki samning sinn við Íslenska gámafélagið heldur bjóða út hirðingu, flutning, gámaþjónustu og móttöku hvert í sínu lagi. Eins gátu fyrirtækin boðið í heildarþjónustuna.
Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, segir markmiðið með breyttu fyrirkomulagið hafa verið að hleypa fleiri fyrirtækjum að borðinu. „Það eru fá fyrirtæki sem geta staðið undir því að bjóða í heildarþjónustuna. Við vorum sammála um að fara þessa leið til að gefa fleirum tækifæri á að koma inn. Við teljum þetta líka tækifæri til að auka atvinnuframboð í sveitarfélaginu, sem er jákvætt.“
Hann segir útboðin hafa skilað þeim árangri sem vænst var eftir. „Við vonumst eftir að fá góða og samfellda þjónustu og vonandi leiðir þetta ekki til aukins kostnaðar.“
Þá mun Fjarðabyggð á ný taka við rekstri gámastöðva og sorphirðusvæðisins að Þernunesi við Reyðarfjörð auk þess sem moltugerð flyst til Moltu ehf. í Eyjafirði.
Fyrir helgi var lokið við að skrifa undir samninga við lægstbjóðendur sem voru Kubbur ehf. í hirðingu, Hringrás í flutning, GS lausnir í gámaþjónustu og Terra í móttöku. Nýir þjónustuaðilar taka við frá og með 1. apríl.
Fyrirtæki | Hirðing | % af áætlun | Flutningur | % af áætlun | Gámar | % af áætlun | Móttaka | % af áætlun |
---|---|---|---|---|---|---|---|---|
GS lausnir | 94.965.333 | 153,9% | 3.650.000 | 42,4% | 17.447.800 | 60,3% | 14.460.000 | 155,8% |
Malbikunarstöð Austurlands | 28.184.580 | 327,7% | 1.082.683.233 | 3740,1% | ||||
Rúnar Gunnarsson | 73.590.238 | 112,5% | ||||||
Kubbur ehf. | 65.399.619 | 106,0% | 5.335.000 | 62% | 29.062.928 | 100,4% | 22.500.500 | 340,9% |
Hringrás ehf. | 3.432.000 | 39,9% | ||||||
HP Gámar | 107.576.480 | 174,4% | 19.227.476 | 66,4% | 19.231.180 | 291,4% | ||
Íslenska gámafélagið | 69.951.190 | 113,4% | 3.987.625 | 46,4% | 23.420.000 | 80,9% | 9.442.500 | 143,1% |
Terra | 73.463.031 | 119,1% | 3.763.450 | 43,8% | 29.651.252 | 102,4% | 9.281.400 | 140,6% |
Áætlun | 61.700.257 | 100% | 8.600.000 | 100% | 28.948.000 | 100% | 6.600.000 | 100% |