Búist við mikilli ofankomu á Austurlandi

Austfirðingar mega eiga von á mikilli úrkomu í óveðri sem gengur yfir landið á morgun. Þegar hafa verið gefnar út lokanir fyrir fjallvegi enda ekkert útlit fyrir ferðaveður. Viðbúnaður er hjá dreifiaðilum raforku.

„Austfirðingar eiga von á hríðarveðri. Það er mikil ofankoma í kortunum,“ segir Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Spáð er miklum austanstormi sem færist yfir Austfirði strax í fyrramálið. Í fyrstu mun snjóa en von er á að þegar líður á daginn hlýni og þá komi slydda. Elín segir hins vegar erfitt að átta sig á hitastiginu því yfirleitt kólni í snjókomu.

Mesta úrkoman og vindurinn verða á sunnanverðum Austfjörðum. Elín Björk segir að Austurland og Austfirðir sleppi betur undan vindinum en Suður- og Suðausturland. Veðrið gengur yfir á föstudagskvöld, en suður af landinu bíða lægðir með úrkomu sem ganga yfir Austurland í kjölfarið.

Í tilkynningu frá lögreglunni á Austurlandi eru umráðamenn báta og skipa í höfnum hvattir til að huga að þeim sökum hárrar sjávarstöðu og áhlaðanda. Háflóð var eystra á þriðjudagsmorgun þannig að Elín Björk vonast til að ágangur sjávar hafi ekki of mikil áhrif eystra. Þá hjálpi það til að lægðarmiðjan sé vestarlega þótt vindur standi af austri.

Þá mun Veðurstofan fylgjast með snjóflóðahættu, en í veðri sem þessu er hætta á að snjór safnist í hlíðar.

Alls ekkert ferðaveður

Ljóst er að ekkert ferðaveður verður á meðan stormurinn gengur yfir. Vegagerðin hefur þegar gefið út lokanir. Lokað verður um Fagradal frá klukkan 9-16 á morgun, yfir Fjarðarheiði og Möðrudalsöræfi frá klukkan sex í fyrramálið til klukkan átta á laugardagsmorgunn.

Air Iceland Connect hefur aflýst öllu flugi á morgun. Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri, segir að farþegum sem áttu bókað á morgun hafi verið boðið að færa sig eftir því sem möguleiki var á. Enn er gert ráð fyrir að áætlanir á laugardag haldist óbreyttar.

Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir óvissustigi almannavarna fyrir allt landið. Í tilkynningu lögreglunnar á Austurlandi eru íbúar hvattir til að vera ekki á ferli að nauðsynjalausu á meðan veðrið gengur yfir og beisla allt lauslegt.

Áhyggjur af ísingu á raflínum

Hjá Landsneti hefur verið lýst yfir óvissuástandi en undir hádegi er búist við ísingu og miklu vindálagi á raflínur á Austurlandi. Þar er verið að skoða mönnun í Fljótsdal og ísingarvöktun á línunum sem liggja milli Fljótsdalsstöðvar og Hryggstekks í Skriðdal.

Hætta er talin á margháttuðum truflunum í flutningskerfinu um allt land vegna vinds, ísingar og seltu. Allar viðbragðsáætlanir hafa verið virkjaðar og verið er að færa mannskap á þau svæði sem helst eru talin útsett fyrir álagi. „Við erum vel búin tækjum á svæðinu og okkar gengi á Austurlandi er vel undirbúið,“ segir Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi.

Hjá Rarik fengust þær upplýsingar að allur mannskapur sé í viðbragðsstöðu og búið að fara yfir mönnun og varaafl til að bregðast við mögulegum afleiðingum veðursins. Viðbúnaður eystra sé á pari við aðra landshluta.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar