Bygging viðbyggingu Múlans hafin

Fyrsta skóflustungan að tæplega 800 fermetra viðbyggingu samvinnuhússins Múlans í Neskaupstað var tekin í síðustu viku. Þegar er búið að leigja út nær allt pláss í henni. Tilkoma hússins hefur skapað fjölda nýrra starfa þar.

Það var Magnús Jóhannsson, stjórnarformaður SÚN, sem tók fyrstu skóflustunguna að viðbyggingunni mánudaginn 1. júlí en SÚN er eigandi hússins.

Byggingin hýsti áður verslunina Nesbakka en hún fékk duglega yfirhalningu eftir að SÚN keypti hana, stækkaði og endurbyggði í 960 fermetra skrifstofuhúsnæði. Það var tekið í notkun í janúar 2021. Viðbyggingin verur 750 fermetrar á tveimur hæðum.

Mikil eftirspurn eftir plássi


„Múlinn var orðinn fullur en áframhaldandi eftirspurn eftir rými í honum,“ segir Guðmundur R. Gíslason, framkvæmdastjóri SÚN um aðdraganda framkvæmdanna nú.

„Við ræddum við þá aðila sem fyrir voru sem sumir vildu stækka við sig auk þess sem nýir aðilar vildu komast inn. Við sáum þá að raunhæft væri að byggja við. Fyrst ætluðum við að byggja 350 fermetra við en þegar við sáum hve mikil eftirspurnin var ákváðum við að bæta við hæð.“

MATÍS, Lífeyrissjóðurinn Stapi og Náttúrstofa Austurlands eru meðal þeirra sem stækka við sig. Fiskistofa bætist ný inn og mun deila nýju stóru rými með Hafrannsóknastofnun og Matvælastofnun, sem eru fyrir í Múlanum. AFL Starfsgreinafélag kemur nýtt inn sem og Nestak.

Þá hefur verið ákveðið að útibú Landsbankans verði framvegis í Múlanum, en það flutti inn á skrifstofu SÚN við Hafnarbraut tímabundið eftir að áralangri sambúð bankans við Íslandspóst lauk í byrjun sumars þegar pósthúsinu var lokað. Í Múlanum verður líka aðsetur Eyglóar, nýsköpunarverkefnis í orkunýtingu og hringrás, sem hýst hefur verið hjá Austurbrú. „Við erum búin að leigja út rúmlega 80% þess rýmis sem bætist við.“

Fyrir í Múlanum eru fundarsalir og stór kaffistofa. Þau rými eru vegleg enda frá upphafi gert ráð fyrri að byggja við Múlann. Auk skrifstofurýmis verður í viðbyggingunni sameiginlegt rými sem einnig er hægt að nýta sem fyrirlestrasal.

Ný störf skapast


Guðmundur segir að tilkoma Múlans hafi breytt miklu fyrir Neskaupstað. „Með tilkomu hans urðu til 15 ný störf og við búumst við að þeim fjölgi um tíu í viðbót með þessari framkvæmd.“

Viðbyggingin á að vera tilbúin snemma á næsta ári. Nestak stýrir byggingunni en verktakar að mestu úr Neskaupstað og Fjarðabyggð sjá um framkvæmdirnar.

Viðbyggingin er ekki eina framkvæmdin sem SÚN stendur í þessa dagana en félagið hefur einnig endurnýjað gervigrasvöllinn í Neskaupstað. Þeirri vinnu á að ljúka í næstu viku. Búið að að koma upp ljósamöstrum og vökvakerfi, um 75% gervigrassins hefur verið lagt á og ný stigatafla er á leið til Neskaupstaðar.

Mynd: Berglind Bjørk

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.