Skip to main content

Clint Eastwood leitar að 100 hraustum Austfirðingum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 01. apr 2012 11:30Uppfært 08. jan 2016 19:22

clint_eastwood.jpg
Leikstjórinn margrómaði Clint Eastwood verður með leikaraprufur fyrir nýjustu mynd sína, sem til stendur að taka upp á Austurlandi, klukkan 14:00 á Hótel Héraði í dag. Leitað er að 100 hraustum Austfirðingum til að leika í bardagasenum myndarinnar.

Frá þessu er greint í nýjasta tölublaði Austurgluggans. Eastwood ætti vart að þurfa að kynna fyrir kvikmyndaáhugamönnum en hann lék á sínum tíma í myndum eins og The Good, The Bad & The Ugly og Dirty Harry. Hin síðustu ár hefur hann helgað sig leikstjórn og meðal annars tekið upp stórmyndir á borð við Flags of Our Fathers á Íslandi.

Þessi nýjasta mynd hans verður byggð á tölvuleiknum World of Warcraft sem er einn vinsælasti fjölspilunarleikur heims. Eastwood hefur verið síðustu daga á Austurlandi við leit að hentugum tökustöðum. Hann verður síðan á Egilsstöðum í dag að leita að leikurum.