Ein umsókn um prestsstöðu í Egilsstaðaprestakalli

Ein umsókn barst um embætti prests í Egilsstaðaprestakalli, en frestur til að sækja um starfið rann út í byrjun vikunnar. Hreyfing er á prestum á Austurlandi þar sem nýbúið er að auglýsa lausa stöðu prests í Austfjarðaprestakalli og staða í Hofsprestakalli á leið í slíkt ferli.

Jarþrúður Árnadóttir, prestur á Þórshöfn, er eini umsækjandinn um prestsstöðuna á Egilsstöðum. Hún losnaði eftir að Kristín Þórunn Tómasdóttur var skipuð í Skálholtsprestakall.

Þá er búið að auglýsa stöðu í Austfjarðaprestakalli en Bryndís Böðvarsdóttir, prestur í Neskaupstað frá 2022, er að taka við Fossvogsprestakalli. Hún hefur verið í leyfi að undanförnu en hafði áður óskað eftir flutningi í starfi til Reykjavíkur, að því er fram kemur í svari Biskupsstofu við fyrirspurn Austurfréttar.

Í auglýsingu segir að miðað sé við að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst, í síðasta lagi þremur mánuðum eftir að niðurstaða um ráðningu liggur fyrir. Umsóknarfrestur er til 30. september. Prestakallið nær frá Mjóafirði til Djúpavogs en væntanlegur prestur hefur sérstakar skyldur við sóknirnar á Eskifirði, Reyðarfirði og í Neskaupstað.

Þessu til viðbótar er laus staða sóknarprests í Hofsprestakalli eftir að Þuríður Björg Wiium Árnadóttir var ráðin prestur í Hafnarfjarðaprestakalli. Hún hefur verið sóknarprestur í Hofsprestakalli frá árinu 2017. Hún hefur hins vegar leyst af sem sjúkrahúsprestur á Landsspítalanum frá því í nóvember 2023. Á þeim tíma hefur einkum Jarþrúður sinnt embættisskyldunum frá Þórshöfn.

Samkvæmt reglum Þjóðkirkjunnar á að fara fram þarfagreining sem er í raun gerð starfslýsingar í samvinnu Biskupsstofu og sóknarnefnda fyrir væntanlegt embætti áður en starfið er auglýst. Það ferli er að fara í gang fyrir Hofprestakall.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar