Einelti tekið föstum tökum hjá Síldarvinnslunni

Síldarvinnslan hefur síðustu misseri lagt aukna áherslu á að einelti verði ekki liðið og að tilkynningar eða grunur um slíkt verði tekinn alvarlega.


Að undanförnu hefur mikið verið fjallað um einelti og áreitni um borð í fiskiskipum og í fiskvinnslufyrirtækjum.

Nýleg rannsókn Salóme Rutar Harðardóttur á lífsánægju og starfsumhverfi íslenskra sjómanna bendir til þess að allt of margir sjómenn hafi orðið fyrir einelti eða orðið vitni að því síðustu sex mánuði, eða 39%.

Pistill Þórunnar Ólafsdóttur sem birtist hér á Austurfrétt fór víða, en í honum greindi hún frá kynferðislegri áreitni verkstjóra í frystihúsi fyrirtækisins fyrir átján árum. Umfjöllunin leiddi af sér að Heilbrigðiseftirlitið heimsótti Loðnuvinnsluna á Fáskrúðsfirði og hefur sálfræðingur verið ráðinn til að fara yfir málin á vinnustaðnum og vinna aðgerðaráætlun í samræmi við vinnuverndarlöggjöfina, en greint var frá þessu á vef RÚV og fréttina í heild sinni má lesa hér.

 

Um 25% hafa orðið vitni að einelti innan Síldarvinnslunnar

Nýleg starfsánægjukönnun sem Austurbrú framkvæmdi fyrir Síldarvinnsluna bendir til þess að um 5% sjómanna Síldarvinnslunnar hafi einhvern tímann upplifað einelti og að 25% þeirra hafi einhvern tímann orðið vitni að slíku. Það er lægra hlutfall en í könnun Salóme, en undirstrikar samt þörfina fyrir það að vinna markvisst að því að uppræta einelti.

Á heimasíðu fyrirtækisins segir að nýlega haldið vandað námskeið fyrir starfsmenn um einelti og viðbrögð og að tekið sé skýrt fram í starfsmannastefnu fyrirtækisins að einelti og áreitni af öllu tagi sé algerlega óheimil.

Auk þess hefur verið gripið til aðgerða sem miða að því að starfsmenn eru hvattir til þess að láta vita af því ef þeir hafa orðið fyrir einelti eða áreitni, eða orðið vitni að slíku. Starfsmenn munu einnig hljóta frekari fræðslu og upplýsingar um einelti og áreitni og stjórnendur munu fá sérstaka þjálfun í meðhöndlun eineltis og áreitni. Ásakanir um einelti og áreitni verða rannsakaðar með markvissari hætti og tekið verður fast á brotum.

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.