Skip to main content

Eiríkur Björn: Menn töldu mig of mikið í pólitíkinni fyrir austan

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 09. nóv 2011 16:04Uppfært 08. jan 2016 19:22

arnipall_eirikur.jpgEiríkur Björn Björgvinsson, fyrrverandi bæjarstjóri á Fljótsdalshéraði, segir helsta mun á starfinu þar og á Akureyri, þar sem hann starfar nú, að hann einbeiti sér betur að rekstrinum nyrðra. Pólitísk vinna eystra hafi mögulega haft neikvæð áhrif á feril hans.

 

Þetta kemur fram í viðtali við Eirík í síðasta tölublaði Akureyrar – vikublaðs. Þangað var hann ráðinn til starfa af L-listanum í fyrrasumar  en listinn hefur engar beinar pólitískar tengingar á landsvísu.

„Fyrir austan sáu pólitískir fulltrúar flokkanna sem skipuðu meirihluta sveitarfélaganna um tengingar á landsvísu en hér þarf ég að mestu leyti að sjá um þessi pólitísku tengsl út á við. Það var hins vegar mjög meðvitað allt frá fyrsta degi að mín tengsl myndu snúa að rekstrinum einungis, minn tími á ekki að fara í pólitískan debatt við einn eða neinn,“ segir Eiríkur og bætir við.

„Það kom fyrir að ég var meira í því fyrir austan og sumir segja að það kunni að hafa haft neikvæð áhrif á minn feril þar, að ég hafi innviklast um of í pólitíkina. Hér er ég meira stikkfrí pólitískt.“

Eiríkur var um tíma íþróttafulltrúi á Akureyri áður en hann tók við bæjarstjórastöðunni eystra. Eftir átta ára dvöl þar var staðan auglýst við meirihlutaskipti í sveitastjórnarkosningunum í fyrravor. Eiríkur sótti um stöðuna nyrðra þegar hún var auglýst. Hann þurfti ekki að hugsa sig lengi um þegar hún bauðst.

„Hér á ég nokkra af mínum bestu vinum og þess vegna var það auðveld ákvörðun að sækjast eftir að koma aftur og mér bauðst það.“