Eistnaflug heitir því að taka kynferðisafbrotamál föstum tökum

Skipuleggjendur tónlistarhátíðarinnar Eistnaflugs í Neskaupstað hafa sent frá sér yfirlýsingu um að hátíðin taki það alvarlega ef gestum hennar séu byrluð lyf. Grunur er um tvö slík tilfelli á hátíðinni í ár.

Viðbrögð skipuleggjenda koma í kjölfar fréttar Austurfréttar frá því á föstudag þar sem greint var frá því að tvö tilfelli þar sem grunur væri um að gestum hátíðarinnar hefði verið byrjuð lyf væru til rannsóknar hjá lögreglunni á Austurlandi.

Frá þeim grun greindi reyndar lögreglan sjálf að eigin frumkvæði fyrir tveimur vikum, strax eftir að hátíðinni lauk.

Hátíðin hefur nær alla tíð notað slagorðið „ekki vera fáviti“ og notað það til að koma á framfæri við gesti sína að haga sér siðsamlega. Á tímabili var því einnig lýst yfir að hátíðin yrði lögð niður ef upp kæmu alvarleg mál en dregið var úr því eftir að upp komu ábendingar um að óttinn um slíkar eyðileggingar gæti orðið til þess að ekki væri sagt frá atvikum.

Í yfirlýsingu sem gefin var út á Facebook-síðu hátíðarinnar í gærkvöldi er ítrekað að ekki sé lengur markmið að hátíðinni sé sjálfhætt ef alvarleg atvik komi upp. Staðhæfingin hafi ýtt undir þöggun sem verði aldrei liðin.

Það þýði þó ekki að málin verði ekki tekin föstum tökum. Skipuleggjendur staðfesta að þeir hafi heyrt af öðru málinu strax á meðan hátíðinni stóð og við því hafi strax verið brugðist með hertri gæslu, líkt og fram kom hjá Austurfrétt á föstudag.

Frásagnir af atvikunum eru sögð valda skipuleggjendum áhyggjum því þeir vilji halda í þá trú að fólk geti skemmt sér án þess að koma illa fram hvort við annað.

„Við viljum gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir að þetta geti gerst á hátíðinni. Við viljum áfram halda hátíð þar sem við öll getum verið örugg og passað upp á hvort annað. Því leitum við til ykkar, því betur sjá augu en auga…“

Þeir sem hafa ábendingar um það sem betur megi fara, eða hafi orðið vitni að einhverju misjöfnu geti haft samband við skipuleggjendur, Aflið eða Stígamót eða beint við lögreglu telji þeir málið frekar eiga heima þar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.