Ekki mikið á bakvið þessa spaða: Þykjustu Bandidos-liðar á ferð um páskana

bandidos_borgarafundur1_web.jpg
Orðrómur um að meðlimir Bandidos hefðu heimsótt Egilsstaði um páskahelgina á ekki við rök að styðjast. Einstaklingar sem sögðust tilheyra vélhjólagenginu gera það ekki. 

„Það kom upp orðrómur um að 3-4 einstaklingar sem gistu í sumarhúsi við Egilsstaði tengdust samtökunum. Einn þeirra lét þess getið í orðræði við veitingamann að þeir væru í Bandidos og ætluðu að opna félagsheimili hér eftir þrjár vikur. Við þekkjum þrjá af þessum mönnum en þeir eru ekki í gengjum sem tengjast afbrotum,“ sagði Óskar Bjartmarz, yfirlögregluþjónn á Egilsstöðum á borgarafundi um skipulagða glæpastarfsemi í gær.

Bandidos eru ekki meðal þeirra vélhjólagengja sem enn hafa haslað sér völl hérlendis en eru mjög stór á alþjóðavísu. Mikið og strangt inntökuferli fylgir því að vilja komast í gengið. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur gefið það út að Egilsstaðir séu næsti áfangastaður vélhjólagengja á Íslandi.

Stefán Bogi Sveinsson, forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs, varaði menn við að hlusta á of um yfirlýsingar manna á borð við þá sem voru á ferðinni um páskana.

„Menn verða að gæta sína að vera ekki of hræddir. Oft er þetta bara loft sem þessir aðilar bera á borð. Manni virðist ekki hafa verið mikið á bakvið þessa spaða sem þarna voru á ferðinni.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.