Orkumálinn 2024

Ekki verið að ákveða að loka sundlauginni til frambúðar

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar samþykkti á fundi sínum á fimmtudag að skoða málefni sundlaugarinnar á Reyðarfirði heildstætt í tengslum við frekari uppbyggingu íþróttamannvirkja á staðnum. Á meðan þarf að keyra skólabörnum annað í sundkennslu. Foreldrar á Reyðarfirði mótmæla þeirri ráðstöfun og bæjarfulltrúar minnihlutans gagnrýna meirihlutann fyrir seinagang í málinu.

Lauginni var lokað í lok maí eftir skoðun og alvarlegar athugasemdir Heilbrigðiseftirlits Austurlands (HAUST) en ábending hafði borist eftirlitinu um að málningaragnir væru í sundlaugarvatninu.

Samkvæmt minnisblaði HAUST kom í ljós að talsvert hefði losnað af málningu í lauginni og agnir af henni augljósar í vatninu. Starfsmaður eftirlitsins taldi agnirnar eiga greiða leið upp í munn þeirra sem væru í sundi og var byrjað að tæma laugina áður en starfmaðurinn fór úr húsi. Jafnframt var tiltekið að laugin yrði ekki notuð á ný fyrr en eftirlitið hefði lagt blessun sína yfir viðgerðir.

Skemmdir ljósar eftir hreinsun

Í minnisblaði frá fræðslustjóra og verkefnastjóra á framkvæmdasviði Fjarðabyggðar frá því í ágúst er slegið á að skammtímaviðgerð sem felist í að fylla upp í sprungur og mála yfir kosti tvær milljónir. Sá fyrirvari er settur að það komi ekki í ljós fyrr en búið sé að háþrýstiþvo laugina. Í því minnisblaði er einnig áætlað að akstur skólabarna á Reyðarfirði í aðrar laugar kosti tæpar 15 milljónir árlega. Á móti sparist 2,7 milljónir sem kosti að reka sundlaugina. Niðurstaðan er því aukinn kostnaður upp á 12 milljónir á ári. Þar kemur einnig fram að skólastjórnendur þar sé mótfallnir akstrinum, bæði sé hentugra að kenna innandyra auk þess sem skóladagurinn lengist.

Í framhaldinu var laugin hreinsuð og múrarameistari frá MVA ehf. fenginn til að meta stöðuna, sem hann gerði í lok september.  Niðurstaða þeirrar úttektar var að líklegt væri að sprungurnar opnuðust fljótt á ný og allt endurtæki sig á nýjan leik. Þess vegna þurfi að ráðast í stærri viðgerð með sérstöku efni.

Samkvæmt minnisblaði frá framkvæmdasviði Fjarðabyggðar í lok janúar er kostnaður við stærri viðgerð áætlaður 19,5 milljónir króna. Það sé það minnsta sem þurfi að gera til að laugin standist skoðun og teljist rekstrarhæf. Varað er við að enn séu þó fyrir hendi óvissuþættir í verkinu.

Bráðabirgðaviðgerð ekki til neins

Á fundi bæjarráðs 10. febrúar var bæjarstjóra falið að fara yfir málið og leggja fyrir bæjarráð. Í minnisblaði bæjarstjóra er áætlað að kostnaður við akstur og gæslu barna frá Reyðarfirði í sundkennslu á annað hvort Eskifirði eða Fáskrúðsfirði kosti sjö milljónir króna í vor.

Í minnisblaðinu lýsir bæjarstjórinn því að ekki komi til greina að ráðast í ódýrari viðgerðina sem skoðuð var síðasta haust því ekki sé gefið að hún skili neinu. Þá lýsir hann þeirri skoðun að dýrari viðgerðin sé ekki forsvaranleg meðan heildarskoðun standi yfir á uppbyggingu íþróttamannvirkja á Reyðarfirði. Þar tekur hann þó fram að árlegur rekstrarsparnaður af því að loka lauginni á Reyðarfirði alfarið sé 2,7 milljónir króna. Á fundi 17. febrúar, þar sem málið var tekið fyrir, samþykkti bæjarráð að fela fræðslusviði að útfæra akstur í sundkennslu í vor en taka lagfæringar á sundlauginni inn í heildarendurskoðun íþróttamannvirkjanna.

Íbúar ósáttir við afgreiðslu

Sú afgreiðsla hefur ekki farið vel í íbúa á Reyðarfirði. Í bréfi, sem undirritað er af formönnum íbúasamtaka Reyðarfjarðar, Ungmennafélagsins Vals, starfshóps um nýtt íþróttahús og foreldrafélagið grunnskólans á Reyðarfirði er bæjarstjórn hvött til að falla frá áformum um akstur með skólabörn milli byggðarlaga í sundkennslu. Skorað er á hana að hefja undirbúning viðgerða strax í vor og þess krafist að hægt verði að kenna skólasund í lauginni strax næsta haust. Formennirnir vísa máli sínu til stuðnings á öryggismál, umhverfismál og að með akstrinum sé í raun verið að færa eina skólastofuna í annað byggðarlag.

Þá gekkst foreldrafélag grunnskólans fyrir undirskriftalista sem afhentur var bæjarstjórn við upphaf fundar hennar síðasta fimmtudag. Um 220 manns, mest íbúar á Reyðarfirði, skrifuðu nafn sitt á listann. Misskilnings virðist reyndar gæta þar sem í yfirskrift undirskriftarinnar segir að bæjarstjórnin hafi ákveðið gera ekki við sundlaugina heldur keyra börnunum annað í sundkennslu. Þó er tekið fram að ásættanlegt sé að keyra börnunum í aðra byggðarkjarna þennan veturinn, svo framarlega sem hafist verði handa við viðgerðina sem fyrst.

Undirbúið í vor og framkvæmd í sumar

Á fundinum á fimmtudag samþykkti bæjarstjórn samhljóða bókun þar sem því er lýst að mikilvægt sé að tryggja sundkennslu nemenda í Grunnskóla Reyðarfjarðar á yfirstandandi skólaári sem fyrst og setur það verk í hendur fræðslustjóra. Málefni sundlaugarinnar er að öðru leyti vísað til íbúafundar á Reyðarfirði sem halda á 5. mars. Niðurstöður hans fari til umfjöllunar hjá nefndum sveitarfélagsins sem skili af sér eigi síðar en í byrjun maí þannig sumarið nýtist til framkvæmda.

Eydís Ásbjörnsdóttir, formaður bæjarráðs, ítrekaði á fundi bæjarstjórnar að engin ákvörðun lægi fyrir um að loka lauginni til frambúðar. Ástand hennar hafi hins vegar slæmt, óljóst sé hvenær viðgerð verði lokið og því óvíst hvenær hægt verði að kenna í henni á ný.

Of seint að bregðast skjótt við núna

Rúnar Gunnarsson, bæjarfulltrúi Miðflokksins, tók fram að misskilningur væri að til stæði að loka lauginni. Hann gagnrýndi hins vegar hve langan tíma hefði tekið að ráðast í aðgerðir. „Það er með ólíkindum. Menn eru nú að vakna við það núna að koma þurfi börnunum í sundkennslu. Það eru ekki góð vinnubrögð.“

Ragnar Sigurðsson, Sjálfstæðisflokki, hrósaði íbúum fyrir að láta til sín taka. Hann sagði alla gera sér grein fyrir að ekki yrði hægt að kenna sund á Reyðarfirði í vor en tók undir með Rúnari að málið hefði tekið of langan tíma. Hægt hefði verið að koma því inn á fjárhagsáætlun þegar hún var samþykkt í desember. Hann gagnrýndi einnig að málið hefði ekki verið tekið fyrir í undirnefndum bæjarstjóra, til dæmis eigna- skipulags- og umhverfisnefnd.

Það sama gerði flokksbróðir hans, Sævar Guðjónsson. „Það er ekki seinna vænna að bregðast skjótt við núna en það er of seint að mínu viti.“ Hann brýndi bæjarfulltrúa til aðgerða. „Hættum að tala um verkin og látum verkin tala.“

Eydís svaraði að viðgerðin hefði ekki farið fyrir nefndir þar sem komið hefði í ljós að hún væri viðameiri en reiknað hefði verið með. Málinu hefði upphaflega verið vísað til bæjarráðs og hlutverk þess að fjalla um verkefni sem væru utan fjárhagsáætlunar.

Ýmsar leiðir færar

Sigurður Ólafsson, formaður fræðslunefndar, viðurkenndi að of langan tíma hefði tekið að fá niðurstöðu í málið. Lengi hefði verið haldið í þá von að hægt væri að stoppa í götin en það hefði endanlega verið staðfest að það gengi ekki. Til framtíðar væri þó trúlega hagkvæmast að gera við laugina, annars þyrfti að keyra börnum frá Reyðarfirði í sundkennslu sem fylgdi röskun á skóla- og tómstundastarfi, kostnaður, mengun og aukin hætta.

Einar Már Sigurðsson, Fjarðalista og formaður eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar, sagði að ýmsa þætti þyrfti að skoða í tengslum við uppbyggingu íþróttamannvirkja og mismunandi útfærslur á viðgerðum. Í dag er sundlaugin í raun undir gólfi íþróttahússins, sem er tekið af meðan sund er kennt. Verði byggt nýtt íþróttahús sé hægt að umbreyta núverandi íþróttahúsi í varanlega sundlaug. Þá sé hægt að setja dúk í laugina, sem sé ódýrari kostur en viðgerð MVA, en komi ekki til greina ef gólf verði lagt á aftur. Hann kvaðst vilja tryggja sundkennslu á Reyðarfirði næsta haust.

Einar Már sagði að rétt hefði verið að eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd hefði fjallaði um málið, helst fyrir nokkrum árum. Þörf væri á að taka viðhaldsmál sveitarfélagsins til endurskoðunar, hætta að bregðast við vandamálum og vinna þau skipulegar.

Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar, sagði tíma til kominn í uppbyggingu íþróttamannvirkja á Reyðarfirði. Þau hefðu ekki haldið í við fjölgun íbúa. Bæði Jón Björn og Einar Már lýstu vonbrigðum sínum með að viðbrögðin í samfélaginu væru á þá leið að loka ætti sundlauginni fyrir fullt og allt.

Ábyrgð skólastjórnenda

Hjördís Helga Seljan Þóroddsdóttir, Fjarðalista og starfsmaður í Grunnskóla Reyðarfjarðar, sagði það hafa verið skell að komast að því hve miklar skemmdirnar væru. Hún bæri hins vegar fullt traust til skólastjórnenda á Reyðarfirði um að skipuleggja sundkennslu í vor.

Pálína Margeirsdóttir, Framsóknarflokki og foreldri nemanda við skólann, gagnrýndi skólastjórnendur fyrir þau skilaboð sem send hefðu verið foreldrum um að ekki yrði gert við laugina. Hún sagði skólastjórnendur ekki hafa fylgt eftir fyrirmælum fræðslunefndar frá í ágúst um að finna lausn á sundkennslu ef ekki tækist að gera við laugina í tíma. Hennar álit væri að bókanirnar nú væru framlengingar á þeirri bókun. Þá gæti hún sem foreldri ekki sætt sig við að barn hennar gæti ekki lokið sundnámi því skólastjórnendur hefðu hundsað fyrirmæli.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.