Enginn greinst jákvæður síðustu tvo daga

Ekkert jákvætt sýni hefur greinst meðal þeirra 90 sem tekin voru á Reyðarfirði og Egilsstöðum á laugardag og sunnudag.

Á morgun er gert ráð fyrir að flestir þeirra sem verið hafa í sóttkví á Reyðarfirði fari í seinni sýnatöku. Niðurstöður úr henni ættu að koma á miðvikudag og þá gæti staðan skýrst. Þá verður til að mynda tekin ákvörðun um framhald skólahalds á Reyðarfirði en grunn- og leikskólarnir eru lokaðir þangað til.

Alls eru um 250 manns í sóttkví eystra, langflestir eftir hópsmit sem tengdist skólastofnunum á Reyðarfirði en sextán smit hafa verið rakin til þess. Enn er unnið að því að ná utan um smitin. Í tilkynningu aðgerðastjórnar almannavarnanefndar Austurlands kemur fram að viðbúið sé að einhverjir þeirra sem séu í sóttkví greinist jákvæðir í seinni sýnatöku.

Um 20 manns eru í einangrun í fjórðungnum. Samkvæmt upplýsingum frá aðgerðastjórnni er ekki vitað til þess að neinn hinna smituðu glími við alvarleg veikindi. Bæði fullorðnir og börn hafa smitast.

Aðgerðastjórnin minnir á að á www.covid.is er að finna allar reglur sem gilda um þá sem eru í sóttkví eða einangrun.

Verið er að tryggja að þeir sem séu í sóttkví eða einangrun geti kosið til Alþingis á laugardag. Sýslumaðurinn á Austurlandi heldur utan um kosninguna. Sérstakur kosningafundur hefur verið settur upp á Reyðarfirði á fimmtudag auk þess sem tekið er á móti fólki til að kjósa á Seyðisfirði milli 15 og 17. Nánari upplýsingar má sjá hér.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.